Bókagjöf til foreldra nýfæddra barna
Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar afhenti á dögunumi Heilsugæslu Mosfellsbæjar höfðinglega gjöf.
Um er að ræða bókina Fyrstu 1000 dagarnir, barn verður til, eftir Sæunni Kjartansdóttur, jafnmörg eintök og fjöldi barna sem fæðist í umdæminu á ári. Stefnt er að því að allir foreldrar nýfæddra Mosfellinga fái bókina að gjöf við komuna í ungbarnaeftirlit.
Afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði barnsins
Á baksíðu bókarinnar stendur: Börn fæðast með alla burði til að verða skynsamar og góðar manneskjur og það er undir okkur fullorðna fólkinu komið að gera þeim það kleift.
Rannsóknir sýna að fyrstu þúsund dagarnir í lífi barns, frá getnaði til tveggja ára aldurs, hafa afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði þess. Ástrík og næm samskipti á þessum tíma leggja mikilvægan grunn að þroska barnsins sem vitsmuna-, tilfinninga- og félagsveru.
Aðgengileg handbók fyrir foreldra og fagfólk
Fyrstu 1000 dagarnir er aðgengileg handbók fyrir foreldra og fagfólk sem byggir á sálgreiningu, tengslakenningum og nýjustu rannsóknum í taugavísindum.
Sæunn sem er sálgreinir og rithöfundur er ein af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna, ásamt þeim Önnu Maríu Jónsdóttur geðlækni, Helgu Hinriksdóttir hjúkrunarfræðingi og ljósmóður og Stefaníu B. Arnardóttur sérfræðingi í fjölskylduhjúkrun. Miðstöðin fékk starfsleyfi frá Embætti Landlæknis 2008 til að sinna geðheilsuvernd á meðgöngu og eftir fæðingu með sérhæfðri tengslaeflandi meðferð fyrir foreldra og börn.