Árinu skilað með rekstrarafgangi

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023 liggur nú fyrir en um er að ræða ársreikning fyrsta heila árs meirihluta B, S og C lista.
Það er verulega ánægjulegt að fyrsta heila ársreikningsári okkar sé skilað með rekstrarafgangi, það er ekki sjálfsagt í því rekstrarumhverfi sem sveitarfélög búa við um þessar mundir. Niðurstaðan sýnir styrkt aðhald í rekstrinum og að áætlanir ganga vel eftir.

Niðurstaða reikningsins er að árið skilar 341 milljón króna í rekstrarhagnað sem er viðsnúningur frá 900 milljóna rekstrartapi árið 2022. Verðbólgan hafði gríðarleg áhrif í rekstri bæjarins eins og hjá öðrum sveitarfélögum. Verðbólguspá ársins 2023 var 4,9% en niðurstaðan var 7,7%.
Niðurstaða ársins hjá Mosfellsbæ var því fjármagnskostnaður, vextir og verðbætur, upp á ríflega 1,7 milljarð króna sem var um 400 milljónum hærri kostnaður en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Tekjur ársins voru um 20,3 milljarðar en þær skiptast í útsvar og fasteignaskatt upp á tæpa 12 milljarða, greiðslur frá Jöfnunarsjóði upp á tæpa 3,5 milljarða og aðrar tekjur upp á ríflega 4,9 milljarða. Byggingarréttargjöld námu rúmlega 700 milljónum króna. Byggingarréttargjöldin vega aðeins á móti háum fjármagnskostnaði en vegna íbúafjölgunar og uppbyggingar hefur sveitarfélagið þurft að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar með lánsfé sem ber háa vexti í dag.
Allar helstu lykiltölur eru vel ásættanlegar. Sem dæmi er veltufé frá rekstri, sem sýnir hversu mikið stendur eftir til að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum, um 1,9 milljarðar eða um 9,5% af tekjum. Skuldaviðmið fer einnig lækkandi en það er nú 94,5%, hefur lækkað úr 104% í ársreikningi 2022.
Ekki er rými hér til að fara yfir ársreikninginn í smáatriðum en við bendum áhugasömum á að hann er aðgengilegur á mos.is. Við viljum þó draga sérstaklega fram eftirfarandi þrjú atriði.

Mikilvægi lækkunar verðbólgu
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að verðbólgan hefur verið erfið viðureignar. Lækkun verðbólgu skiptir rekstur sveitarfélagsins gríðarlegu máli. Þannig munu vaxtagreiðslur Mosfellsbæjar lækka um 170-180 milljónir króna við hvert prósentustig sem verðbólgan

Lovísa Jónsdóttir

lækkar. Af því má sjá að það er til mikils að vinna að ná tökum á verðbólgunni.

Starfsmannafjöldi – launakostnaður
Laun og launatengdur kostnaður eykst milli ára, eða um 1,4 milljarða. Þessi aukni kostnaður er að stærstum hluta vegna samninga um yfirtöku Skálatúns frá miðju ári 2023, hækkunar launavísitölu og kjarasamninga.
Fjöldi starfsmanna Mosfellsbæjar í árslok 2023 var 945 samanborið við 848 árið 2022. Stöðugildi voru 782 samanborið við 712 árið 2022. Stöðugildi Skálatúns voru 70 talsins og starfsmenn 110 þannig að ljóst er að fjölgun stöðugilda er að mestu tilkomin vegna Skálatúns.

Framkvæmdir
Samkvæmt ársreikningi er 84% tekna varið til fræðslumála, velferðarmála og íþrótta- og tómstundamála. Eftir standa þá 16% til annars reksturs og framkvæmda. Það er því ljóst að uppbygging í vaxandi sveitarfélagi kallar á lántöku.
Ýmis stór og kostnaðarsöm verkefni hafa verið í gangi og má þar nefna sem dæmi miklar viðgerðir og endurbætur á Kvíslarskóla, byggingu nýs leikskóla í Helgafellshverfi, nýjan gervigrasvöll að Varmá, endurbætur leikskólalóða og gatnagerð.
Uppbygging sveitarfélagsins þarf að vera í takti við íbúafjölgun en samtímis þarf að gæta ítrasta aðhalds og huga að sjálfbærni til framtíðar. Þarna þarf að finna gott jafnvægi í þeirri verðbólgu sem blasir við.

Áfram veginn
Mosfellsbær býr að öflugu og reynslumiklu starfsfólki sem er vakið og sofið yfir verkefnum sínum og skilar af sér rekstri í samræmi við áætlanir þær sem bæjarstjórn samþykkir. Fyrir það ber að þakka.
Eins og fram hefur komið þá er rekstrarumhverfi sveitarfélaga flókið þessi misserin og nauðsynlegt að gæta að hverju skrefi. Fjárfestingaráætlanir þarf að yfirfara og gæta að því að sveitarfélagið reisi sér ekki hurðarás um öxl. Það er hlutverk bæjarfulltrúa að horfa til framtíðar, taka skynsamlegar ákvarðanir í dag sem hafa heillavænleg áhrif á samfélag okkar til framtíðar.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar