Blómlegt samfélag

Dagný Kristinsdóttir

Þegar líður að sumri eru flestir tilbúnir í hækkandi sól, hita og gott veður. Þolið fyrir umræðum um pólitísk mál minnkar. Og það á ekki bara við um íbúa, við pólítískt kjörnir fulltrúar viljum líka horfa inn í sumarið og á það fallega og bjarta.
Í göngutúr um hverfið mitt í síðustu viku velti ég fyrir mér um hvað ég ætti að skrifa og ákvað að horfa á það sem við höfum fram að færa. Þegar sú ákvörðun var tekin urðu á vegi mínum einstaklingar sem leggja sig fram um að rækta sitt nærumhverfi án þess að láta mikið á því bera.

Góðgerðarvika Helgafellsskóla
Í síðustu viku kom frétt á Facebook síðu Helgafellsskóla þar sem sagt var frá góðverkaviku Helgafellsskóla sem verður haldin síðustu vikuna í maí. Eitt af því sem nemendur skólans hafa gert í vor er að sá alls kyns fræjum af sumarblómum, kryddplöntum og kirsuberjatómötum.
Þessi afrakstur er til sölu á góðu verði og rennur ágóðinn til góðra málefna. Hægt er að koma við í gróðurhúsinu virka daga frá klukkan 12-14.

Verslum í heimabyggð
Sumarblómin fylgja óneitanlega sumrinu og við erum svo heppin að geta keypt þau hér í okkar bæ. Áður var minnst á sumarblómin, kryddjurtirnar og tómatana í Helgafellsskóla. Dalsgarður er með mikla sumarblómarækt ásamt rósum og jarðarberjaplöntum.
Og ekki má gleyma snillingunum á Skálatúni sem hafa opna vinnustofu frá klukkan 8.30-15.30 á virkum dögum. Þessa dagana standa þau fyrir myndlistarsýningu í Lágafellslaug sem er gaman að sjá.

Hlúum að nærumhverfinu
Í göngutúr í liðinni viku gekk ég fram á eldri hjón sem höfðu upp á sitt einsdæmi tekið að sér part af beði fyrir neðan Einiteig. Þar eru þau búin að reita og snyrta beð, setja niður tré og trjákurl yfir. Trjábeðið er með eindæmum snyrtilegt og vel um gengið. Fyrir þetta framtak má svo sannarlega hrósa.
Svo er það plokkarinn í Reykjahverfi sem dundar sér við það að taka göngutúr og snyrta nærumhverfið allt árið um kring, ekki bara á stóra plokkdaginn. Um daginn fór hann Hafravatnsveg frá Reykjahverfi upp að Hafravatni. Næst þegar við eigum leið þar um má hugsa til þessa göngugarps og þakka honum fyrir að hugsa um sitt nærumhverfi.
Samfélag myndast af þeim sem búa á svæðinu, lifa saman og nýta auðlindirnar sem eru í umhverfinu. Þess vegna skiptir máli að við sem búum í okkar góða bæ lítum til þess sem er í boði og stöndum með því sem boðið er upp á.
Gleðilegt sumar!

Dagný Kristinsdóttir
oddviti Vina Mosfellsbæjar