Árið sem er að líða
Á sama tíma og við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ óskum ykkur gleðilegrar hátíðar viljum við þakka fyrir samstarfið og árið sem er að líða. Starf deildarinnar hefur farið víða á liðnu ári og tekið breytingum í samræmi við breytta íbúasamsetningu.
Sjálfboðaliðar deildarinnar prjónuðu fyrir börn í Hvíta-Rússlandi og hælisleitendur á Íslandi, þeir aðstoðuðu börn við lestur og heimanám, liðsinntu og studdu við flóttafólk á svæðinu, héldu úti skiptifatamarkaði víðsvegar, heimsóttu gestgjafa, rufu félagalega einangrun og brugðust við neyð þegar þess þurfti.
Svæði deildarinnar er viðamikið og lifandi. Deildin hefur vaxið á árinu úr 60 sjálfboðaliðum upp í 100 og starfið í samræmi. Við munum halda áfram með þau fjölmörgu verkefni sem taka mið af þörfum nærsamfélagsins auk þess sem við hyggjumst efla þá starfsemi er snýr að innflytjendum, ungmennum og eldri borgurum.
Við erum fyrst og fremst þakklát sjálfboðaliðum okkar því án þeirra væri framkvæmd verkefna okkar ekki möguleg. Þeim sem styrkja starfið með félagsgjöldum eða annars konar framlagi kunnum við einnig miklar þakkir fyrir. Við erum hrærð, stolt og full af þakklæti og vonumst til að eiga í farsælu samstarfi á komandi ári.
Vilji fólk styðja enn meira við starf Rauða krossinn á Íslandi er hægt að gerast Mannvinur. Þeir greiða mánaðarlegt framlag sem nýtist í ýmiskonar hjálparstarf Rauða krossins á innlendum og erlendum vettvangi.
Hafið það sem allra best um hátíðarnar og hlúið hvert að öðru, þannig byggjum við betra samfélag.
Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Margrét Lúthersdóttir, deildarstýra