Áramótaheit og svikin loforð
Fyrstu dagar janúarmánaðar einkennast gjarnan af góðum fyrirheitum: fólk kappkostar að lofa sjálfu sér og öðrum að gera meira af sumu og minna af öðru, að verða betri en síðast. Þessu athæfi svipar mjög til síðustu vikna fyrir kosningar, þegar flokkar og framboðslistar lofa öllu fögru.
Áramótaheit og kosningaloforð eru að sjálfsögðu hið besta mál, séu þau sett fram af einlægni og viðkomandi ætli sér að vinna að þeim. Þau þurfa jafnframt að vera raunhæf og byggjast á staðreyndum.
Eitt af „áramótaheitum“ Sjálfstæðisflokksins hér í bænum var að losa Mosfellinga við urðunarstaðinn í Álfsnesi, fyrir lok árs 2020. Sumarið 2020 var ljóst að ekki myndi verða af þeirri lokun og skrifuðu fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan viðauka við eigendasamkomulag SORPU þar sem kveðið var á um að skarpt yrði dregið úr urðun sorps og henni alfarið hætt í árslok 2023. Strax í september 2020, tveimur mánuðum eftir undirskrift viðaukans, var magn urðaðs úrgangs komið yfir 80.000 tonn, samanborið við þau 79.000 sem gert var ráð fyrir að urðuð yrðu í heild sinni á árinu. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu SORPU fyrir árið 2020 var heildarmagn móttekins úrgangs á urðunarstaðinn 177.000 tonn, þar af 105.255 tonn í urðun eða rúmum 30% meira en gert var ráð fyrir á því ári.
Svipaða sögu er að segja fyrir árið 2021, í október var magn í urðun komið yfir 89.000 tonn en leyfilegt magn fyrir allt árið samkvæmt viðauka við eigendasamkomulagið átti að vera 55.000 tonn.
Ein af aðgerðunum sem nefndar eru í viðauka til að minnka urðun var lokun Gýmis haustið 2020. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar hrósaði sérstaklega sigri varðandi lokun „stærsta klósetts norðan Alpafjalla“, eins og hann kaus sjálfur að kalla Gými. Vert er að minnast þess að þessi yfirbyggða móttaka á lyktarsterkum úrgangi, Gýmir, var sett upp nokkrum árum áður fyrir tilstuðlan Mosfellsbæjar sem liður í baráttu við lyktarmengun frá urðunarstaðnum.
Undirritaður spurði á fundi bæjarstjórnar í lok september 2020 hvað gera ætti við þann úrgang sem farið hafði í Gými fram að því, t.d. sláturúrgang frá alifuglabúum í Mosfellsbæ. Bæði bæjarstjórinn og fulltrúi bæjarins í stjórn SORPU til margra ára, bæjarfulltrúinn Kolbrún Þorsteinsdóttir, fullyrtu að hann myndi fara í Gas- og jarðgerðarstöð fyrir árslok 2020. Í árslok 2020 var reyndar ekki búið að setja upp í GAJA þann búnað sem þurfti til þess að taka á móti sláturúrgangi og hefur mér vitanlega enn ekki verið gert. Móttaka á slíkum úrgangi er þar að auki ekki heimil samkvæmt gildandi starfsleyfi GAJA.
Það er gott að setja sér markmið en þau verða að vera raunhæf og viðeigandi. Það er ekki nóg að segjast ætla að loka urðunarstaðnum. Ábyrgð sveitarfélaga á meðhöndlun úrgangs, bæði gagnvart íbúum og atvinnulífi, hverfur ekki við að segja það.
Sorpmál eru flókin en þau skipta okkur öll miklu máli bæði út frá fjárhagslegu og umhverfislegu sjónarmiði. Áramótaheit okkar, Vina Mosfellsbæjar, er að halda áfram að hafa áhuga á þessum málaflokki, að stuðla að yfirvegaðri umræðu sem byggist á staðreyndum, Mosfellingum og öðrum íbúum höfuðborgarsvæðisins til heilla.
Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd