Afhentu ágóða styrktarkvölds
Þann 24. mars héldu UMFUS félagar kótelettu-styrktarkvöld líkt og í fyrra fyrir sína menn í Ungmennafélaginu ungir sveinar.
Boðið var upp á dýrindis kótelettur framreiddar af Ragnari Sverrissyni hjá Höfðakaffi. Aðrir styrktaraðilar voru Víking, Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Norðlenska. Umfus vill koma á framfæri þökkum til allra sem styrktu þetta góða málefni með nærveru sinni, framlögum og aðstoð.
Í ár var ákveðið að styrkja Þorstein Atla Gústafsson, sem er tæplega 6 ára gamall sprækur og glaður Mosfellingur, og fjölskyldu hans. Foreldrar hans eru Sóley Erla Ingólfsdóttir og Gústaf Helgi Hjálmarsson. Þosteinn Atli á tvo bræður, Ingólf Orra og Þorkel Mána.
Notar augun til tjáningar
Þorsteinn Atli er með með mjög sjaldgæfa stökkbreytingu í geni sem heitir SCN8A. Hann er algjörlega einstakur því aðeins eru greind um 100 tilfelli í heiminum. Hann er flogaveikur og hreyfihamlaður auk þess sem hann er með þroskaskerðingu. Hann tjáir sig ekki á hefðbundin hátt en hann notar augun til tjáningar.
Í Klettaskóla þar sem Þorsteinn Atli stefnir á að hefja nám í haust hefur verið í gangi þróunarverkefni með augnstýribúnað sem heitir Tobii og hefur reynst vel fyrir þá sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir.
Því miður er þessi búnaður ekki niðurgreiddur af tryggingum. Til þess að Þorsteinn Atli geti lært að nýta sér svona tæki er nauðsynlegt að hafa slíkan búnað heima líka. Það er því von UMFUS félaga að þetta framlag komi að góðum notum.