Af fjölnota íþróttahúsi
Skömmu fyrir síðustu kosningar árið 2014 var mikil umræða meðal íbúa í Mosfellsbæ, einkum þó meðal foreldara barna sem æfðu knattspyrnu, um að sárlega vantaði fjölnota íþróttahús í Mosfellsbæ.
Ástæðan var að þeim fannst ekki boðlegt að börn þeirra væru að hrekjast úti í misjöfnum veðrum við æfingar og keppni. Einnig var orðið afar þröngt um alla starfsemi Aftureldingar að Varmá og hafði félagið því sett slíkt hús efst á sinn óskalista.
Greinilega líkaði sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ ekki að ganga til kosninga 2014 án þess að vekja vonir um að slíkt gæti gerst. Bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson, lagði þá til að skipaður yrði starfshópur undir hans forystu til undirbúnings byggingar fjölnota íþróttahúss í Mosfellsbæ. Í viðtali við Mosfelling orðaði hann það þannig: „Ekki er spurning um hvort slíkt hús verði byggt heldur aðeins hvenær, hvar og hvernig.“
Hér er ekkert hik. Starfshópurinn tók til starfa fyrir síðustu kosningar og skoðaði m.a. nokkur fjölnota íþróttahús. Eftir kosningar tók Ólafur Ingi sæti í starfshópnum af fyrri fulltrúa Samfylkingarinnar. Í stuttu máli þá varð það niðurstaða starfshópsins að slíkt hús sem helst var áhugi á og passaði við þarfagreiningu Aftureldingar myndi kosta um 1.200 milljónir og það væri heppilegast að byggja að Varmá. Nánar tiltekið yfir stóra gervigrasvöllinn.
Ekki hafði árað vel í rekstri sveitarfélagsins árin 2014 og 2015. Einnig var ljóst að ráðast þyrfti í framkvæmdir við skólabyggingar á næstu árum og lítið svigrúm væri, eins og mál stóðu þá, til frekari fjárfestinga. Að reisa húsið í einkaframkvæmd var rætt sem möguleiki en það hafði ýmsa annmarka, meðal annars hvað varðar aðgengi Aftureldingar að tímum í húsinu. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í apríl 2015 og lagði jafnframt til að hann starfaði áfram að verkefninu. Því boði var ekki tekið heldur kaus meirihlutinn að færa verkefnið til embættismanna bæjarins þar sem það dagaði uppi eftir einhverjar vonlausar tilraunir til að fá einkaaðila til að taka að sér framkvæmdina og reksturinn.
Okkur í Samfylkingunni grunaði reyndar frá upphafi að þessu máli hafi ekki fylgt mikil alvara af hálfu meirihluta sjálfstæðismanna og vinstri grænna.
Skipt um kúrs
Í upphafi síðasta árs barst síðan erindi frá Aftureldingu þar sem félaginu var orðið ljóst að ekkert myndi gerast í málinu. Ungmennafélagið lagði fram breytta framtíðarsýn sem fólst m.a. í því að breyta fyrri áformum um fjölnota hús í fullri stærð og sættast á þrisvar sinnum minna hús en fyrirhugað var áður. Lítið hús er betra en ekkert, sagði einhver.
Þessari stefnubreytingu var tekið fagnandi af meirihlutanum og núna er búið að ákveða að reisa stálgrind klædda með dúk yfir lítinn gervigrasvöll. Þrisvar sinnum minni að flatarmáli en upphaflega var ætlunin og áætlað að kosti um 400 milljónir. Gamla gervigrasið þar sem vænlegast þótti að reisa fjölnota íþróttahúsið hefur verið endurnýjað þannig að varla verður reist fjölnota íþróttahús þar á næstu árum.
Hugsum málið upp á nýtt
Um þessar mundir árar betur í rekstri Mosfellsbæjar og framtíðarhorfur eru góðar enda fjölgar íbúum í bænum hratt. Þeirri fjölgun þarf að mæta með aukinni þjónustu og uppbyggingu margvíslegrar aðstöðu. Það er verkefni kjörinna fulltrúa að forgangsraða í þágu íbúanna. Við þá forgangsröðun þarf að líta til ýmissa þátta. Eins og til að mynda þeirra hvort við viljum frekar greiða hratt niður skuldir eða gera það aðeins hægar og byggja í leiðinni upp góða íþróttaaðstöðu fyrir ungmenni okkar eins og t.d. fjölnota íþróttahús í fullri stærð. Í ljósi þessa teljum við að nú eigi að endurmeta getu bæjarins til að koma sér upp fjölnota íþróttahúsi í fullri stærð til að hægt sé að halda uppi þróttmiklu íþróttastarfi sem við getum öll verið stolt af. Það munum við í Samfylkingunni gera á næsta kjörtímabili ef við fáum afl til þess í kosningunum. Setjum X við S á kjördag og kjósum betri Mosfellsbæ.
Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Branddís Ásrún Snæfríðardóttir,
varamaður í íþrótta- og tómstundanefnd.