Ætla að afla sér þekkingar um langlífi og heilsuhreysti
Hjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson eru á leið í spennandi rannsóknarleiðangur í janúar næstkomandi. Hjónin reka æfingastöðina Kettlebells Iceland á Reykjavegi í Mosfellsbæ.
Vala er menntaður iðjuþjálfi og vann í mörg ár á Reykjalundi, Guðjón er samskiptafræðingur og starfar sem ráðgjafi í orkustjórnun hjá Hagvangi auk þess að skrifa heilsupistla í Mosfelling. Vala og Gaui eiga fjóra drengi á aldrinum 7-23 ára.
Dvelja á stöðum þar sem fólk lifir lengst
„Við Vala og tveir yngstu drengirnir okkar erum að elta hjartað og erum á leið í fimm mánaða rannsóknarleiðangur í janúar. Förum á staði þar sem fólk lifir lengst og við besta heilsu. Við ætlum að taka viðtöl við heimamenn, lifa eins og þeir og komast að leyndardómum þeirra frá fyrstu hendi. Svo ætlum við að skrifa bók og gefa út haustið 2019 og halda fyrirlestra víða um Ísland og segja frá því sem við höfum komist að. Vonandi náum við að fjármagna það verkefni, en nú stendur yfir hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund,“ segir Gaui.
Í fimm mánuði um fimm blá svæði
„Blue Zones eru fimm svæði í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa fram á síðasta dag er regla frekar en undantekning. Við viljum læra af þessum svæðum hvernig við getum dregið verulega úr stressi og álagi, forðast lífsstílstengda sjúkdóma, bæta heilsuna og lifað lengi – betur.
Bæirnir sem tilheyra Blue Zones svæðunum eru Loma Linda í Bandaríkjunum, Nicoya-skaginn á Kosta Ríka og eyjurnar Okinawa í Japan, Ikaria á Grikklandi og Sardinía á Ítalíu,“ segir Vala en bókin kemur til með að heita Lifum lengi – betur.
Gulrótin hvatning til að fara af stað
„Stundum þarf hvatningu eða smá spark í rass til þess að láta drauma verða að veruleika. Þann 29. maí þegar við hjónin fengum afhenda Gulrótina, lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu bæjarins, ákváðum við að láta slag standa. Fara í Blue Zones ferð, komast að leyndarmálum þessara fimm samfélaga og miðla síðan áfram til Íslendinga því sem við myndum komast að.
Við erum gríðarlega þakklát þeim sem taka þátt í að fjármagna þetta með okkur og dreifa boðskapnum áfram. Okkur langar virkilega að láta þetta gerast.“
Smellið hér til að skoða verkefnið á Karolina Fund.