Að skapa gefur lífinu lit

katasprey

Katrínu Sif Jónsdóttur þekkja margir innan hárgreiðslu- og tískubransans en hún er einn af eigendum Sprey hárstofu. Katrín starfar einnig við að greiða fyrirsætum fyrir tískusýningar og módelmyndatökur og hefur komið víða við bæði hér heima og erlendis.
Það sem henni finnst mest heillandi við starfið er að geta skapað miðað við mismunandi þarfir viðskiptavina sinna.

Katrín Sif er fædd í Reykjavík þann 28. janúar 1988. Foreldrar hennar eru þau ­Emilía Helga Þórðardóttir þjónustufulltrúi hjá Happdrætti Háskóla Íslands og Jón Jósef­ Bjarnason ráðgjafi. Katrín á tvö systkini,­ þau Bjarka og Elísabetu Ýrr.

Verklegu fögin skemmtilegust
„Mér fannst frábært að alast upp í Mosfellsbæ. Við bjuggum í Barrholtinu en þegar ég var sex ára þá fluttum við til Svíþjóðar í tvö ár þar sem foreldrar mínir fóru í nám. Ég náði góðum tökum á sænskunni og eignaðist góða vini þarna sem ég er enn í sambandi við.
Ég hóf nám í Varmárskóla eftir að við fluttum heim. Ég man að mér fannst mest gaman í öllum verklegu fögunum eins og heimilisfræði, myndmennt og handavinnu. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á listgreinum og fór í Myndlistaskólann í Álafosskvosinni. Þar fór ég líka á leirnámskeið.
Ég lærði á þverflautu í Tónlistarskólanum í níu ár og sé enn eftir því í dag að hafa hætt en það er aldrei að vita nema maður byrji aftur einn daginn.
Við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mikið saman. Nokkrum sinnum héldum við systurnar og vinkonur mínar tónleika úti í garði, mamma poppaði og svo seldum við krökkunum inn. Þetta er ótrúlega skemmtileg minning,“ segir Katrín og brosir.

Tók þátt í hárkeppnum erlendis
Eftir útskrift úr Gaggó Mos fór Katrín í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á félagsfræðibraut. „Ég áttaði mig fljótlega á því að ég átti engan veginn heima á bóklegu brautinni enda kom það í ljós. Ég fékk fall­einkunn eftir fyrsta árið.
Ég sagði við foreldra mína að ég vildi fara í Iðnskólann í Reykjavík að læra hárgreiðslu og það varð úr. Á meðan ég var í skólanum tók ég þátt í hárkeppnum og lenti m.a. í þriðja sæti í alþjóðlegri hárgreiðslukeppni á Englandi.“

Besta ákvörðun sem ég hef tekið
„Þegar leið að útskrift fékk ég boð um að kaupa hlut í hárgreiðslustofu í Mosfellsbæ sem ég þáði. Sprey hárstofa opnaði síðan í byrjun árs 2009. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Það er dásamlegt að vera sjálfstæður atvinnurekandi, ráða tíma sínum sjálfur og starfa við það sem maður elskar.
Síðan hafa fleiri eigendur bæst í hópinn, Svava Björk og Dagný Ósk eiga stofuna með mér í dag og með okkur starfa fimm aðrar konur.“

Fá útrás fyrir sköpunargleðina
Starfsfólk Sprey ásamt öðru fagfólki gerir hárlínur tvisvar á ári. „Við hittumst og búum til línurnar saman. Förðunarfræðingar, stílistar og ljósmyndarar hafa komið að þessu með okkur. Tilgangurinn er að fá útrás fyrir sköpunargleðina og láta hugmyndaflugið ráða.
Ég hafði leitað lengi eftir að komast í tengsl við hárbransann erlendis og fékk eftir þriggja ára leit boð um að greiða á tískuviku í Prag. Nú hef ég farið tvisvar þangað, eins til Danmerkur og Parísar og er nú á leiðinni til Eistlands.
Þessar tískuvikur gera manni kleift að fylgjast með nýjustu tískustraumunum og það er einstaklega gaman að hitta allt þetta fagfólk sem maður lærir svo margt af.
Ég held úti lífsstílsbloggi, pigment.is, þar sem ég skrifa um ferðalög, tísku, matargerð og margt fleira.“

Dvöldu í mánuð í Asíu
Kærasti Katrínar heitir Bárður Fannar Lúðvíksson og er frá Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann starfar hjá Granítsteinum í Hafnarfirði. Þau eiga litla sæta kisu, hana Mínu, en Bárður gaf Katrínu hana í afmælisgjöf.
„Við Bárður stundum bæði snjóbretti og reynum að komast í fjöllin eins oft og mögulegt er. Eins finnst mér gaman að skella mér í köfun af og til en líkamsrækt stunda ég daglega.
Við elskum að ferðast og skoða heiminn og erum nýkomin frá Asíu þar sem við dvöldum í mánuð. Þar vorum við að kafa, „surfa“ og skoða okkur um.
Það var gaman að hjóla í gegnum hrísgrjónaakrana og sjá hvað fólkið þarna er ótrúlega nægjusamt. Eitthvað sem við öll mættum kannski temja okkur,“ segir Katrín að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 23. febrúar2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs