Að rækta garðinn sinn
„Maður verður að rækta garðinn sinn“ sagði Birtíngur í lok samnefndrar bókar eftir Voltaire. Það er hægt að leggja margs konar merkingu í þessi orð, en ein túlkun er sú að hver og einn beri ábyrgð á því að skapa sína eigin paradís í samspili við nærumhverfi sitt og samferðamenn.
Ef Mosfellsbær er okkar heimili þá mætti segja að fellin í kringum okkur, heiðarnar, skógarnir, árnar og vogarnir séu okkar garður og höfum við bæjarbúar skyldu til að rækta hann svo hann verði sem blómlegastur.
Eitt af höfuðeinkennum Mosfellsbæjar hefur verið hugmyndin um „sveit í borg“ og spila fyrrnefnd náttúra og víðerni þar höfuðhlutverk. Aðdráttarafl Mosfellsbæjar fyrir öllum þeim sem vilja njóta útivistar og óspilltrar náttúru er skýrt enda fjölgar bæjarbúum dag frá degi og færri komast að en vilja. Slíkri uppbyggingu og fólksfjölgun fylgja áskoranir, en jafnframt tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt og gera betur. Þétting byggðar, stuðningur við fjölbreytta samgöngumáta, rík áhersla á lýðheilsu og útivist og grænar áherslur í skipulagi eru meðal atriða sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur horft til í uppbyggingu bæjarins. Það er mikilvægt að sú uppbygging verði framsækin og umhverfismiðuð, en einnig í samræmi við þann bæjarbrag sem við höfum notið hingað til, svo að við glötum ekki því sem gerði bæinn okkar svo eftirsóttan til að byrja með.
Það hefur ýmislegt áunnist í umhverfismálum í Mosfellsbæ á liðnu kjörtímabili sem við getum verið stolt af. Ný og róttæk umhverfisstefna Mosfellsbæjar var gefin út árið 2019 sem markaði skýra sýn í umhverfisvernd, sjálfbærri landnýtingu, fræðslu og úrgangsmálum svo fátt eitt sé nefnt. Á kjörtímabilinu átti umhverfisnefnd bæjarins frumkvæði að því að stækka friðland við Varmárósa til að vernda enn fremur viðkvæmt votlendi og stefnt er að því í samstarfi við Reykjavíkurborg að friðlýsa Leiruvog og og Blikastaðarkró. Ef það heppnast mun Mosfellsbær hafa komið að því að friða alla þá ósnertu strandlengju og hafsvæði sem bærinn á land að fyrir komandi kynslóðir til að njóta. Í samstarfi við fyrirtækið Resource International mun Mosfellsbær hefja reglubundnar loftgæðamælingar innan bæjarmarkanna á næstu misserum. Það er stöðug vinna að styðja við fjölbreytta og umhverfisvæna samgöngumáta, en bærinn hefur sýnt þann stuðning í verki með samstarfi um Borgarlínu og áframhaldandi uppbyggingu göngu- og hjólastíganets í bænum.
Umhverfis og loftslagsmál eru og munu halda áfram að vera stærsta staka áskorun og áhyggjuefni nútíma samfélags. Það þarf engan að undra sem hefur rætt þann málaflokk við yngri kynslóðir okkar. Liðinn er sá tími að umhverfismál og umhverfisvernd séu einungis til punts, nú er það okkur beinlínis nauðsyn að finna sjálfbærari leiðir til að lifa á þessari jörð og nýta hana. Eitt brýnasta verkefni stjórnvalda er að finna leiðir til að virkja hvern og einn einasta einstakling í því verkefni. Sveitarfélagið sem minnsta lýðræðislega stjórnsýslueiningin er kjörinn vettvangur fyrir slíkt, en hvar byrjar sú vinna ef ekki í skólunum, í lífi og leik út í náttúrunni, í umræðum við kvöldverðarborðið?
Það er hagur okkar allra að Mosfellsbær sé til fyrirmyndar í umhverfismálum, og að okkur bæjarbúum sé kleift að taka sem virkastan þátt í því verkefni. Þannig getum við haldið áfram að rækta garðinn okkar, svo að vist þeirra sem á eftir komi verði ávallt örlítið farsælli.
Bjartur Steingrímsson,
formaður Umhverfisnefndar Mosfellsbæjar fyrir hönd Vinstri Grænna.