Að gefnu tilefni
Í árslok 1970 birtist í Morgunblaðinu grein Halldórs Laxness: „Hernaðurinn gegn landinu“. Þá var ég í námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð og þessi grein kveikti bókstaflega í mér sem öðru ungu fólki. Síðan hef ég tekið töluverðan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mörgu tengdu umhverfismálum og vona ég að ég verði enn að meðan ég lifi. Ég starfaði töluvert í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar um aldarfjórðungsskeið.
Við hjónin tókum gjarnan börnin okkar með í gróðursetningu og við að hlúa að skóginum meðan ung voru. Þá voru fjöruferðirnar í Leirvoginn okkur mjög lærdómsríkar. Ætli náttúran sé ekki eitt besta tækifærið að ala upp börn við holla og góða hreyfingu og fylgjast með lífinu á marga lund. Drengirnir okkar sem nú eru komnir á fertugsaldur minnast oft á þessar stundir sem einar þær bestu í bernsku þeirra.
Fyrir rúmum 11 árum átti ég þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélag Mosfellsbæjar. Því miður hefur starf þess legið niðri en það þarf að endurvekja við fyrstu hentugleika. Höfða ég sérstaklega til yngra fólksins að taka við keflinu enda erum við sem erum að hefja eftirlaunaárin ekki lengur miklir bógar. En við getum veitt mikið frá okkur og miðlað, bæði þekkingu og reynslu.
Mosfellsbær hefur tekið mjög miklum stakkaskiptum frá því við Úrsúla fluttum úr Reykjavík og hingað í ársbyrjun 1983. Alltaf er okkur minnisstætt þegar gríðarlega stór hópur snjótittlinga sveimaði á móti okkur þegar við ókum í flutningabílnum með fremur fátæklega búslóðina okkar niður Arnartangann. Nánast hvergi var trjágróður að sjá og hvergi skjól fyrir næðingnum og skafrenningnum sem oft fyllti götur og gerði þær mjög oft torfærar á vetrum.
Í Mosfellspóstinum sem þá kom út mátti oft sjá lesendabréf garðeigenda sem skömmuðust út af öllum rollunum sem víða óðu um garðana og átu allt sem tönn á festi.
Þá voru Mosfellingar einungis rúmlega 2.000 að tölu. Síðan hefur Mosfellingum fjölgað mjög mikið og verið iðnir við að rækta garðana sína og sinna nánasta umhverfi sínu. Er nú svo komið að Mosfellsbær er eitt af fegurstu sveitarfélögum landsins sökum fjölbreytts gróðurs.
Ég er þakklátur Mosfellingum fyrir að veita mér viðurkenningu á bæjarhátíðinni fyrir störf mín tengd umhverfismálum. Hún er mér dýrmæt og mun hvetja mig áfram við að halda áfram mínu striki þótt einhver óvænt hliðarspor verði.
Góðar stundir!
Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ