30 dagar
Ég er á degi fjögur í 30 daga áskorun þegar þessi Mosfellingur kemur út. Ég elska áskoranir, svo lengi sem þær eru líklegar til þess að gera manni gott. Þessi áskorun gengur út á mataræði, að borða ákveðnar fæðutegundir og sleppa öðrum á sama tíma.
Ég tek þátt í áskoruninni til þess að komast að því hvort mér líði enn betur ef ég sleppi því að borða fæðutegundir sem ég hef borðað talsvert mikið af undanfarið. Ég hef grun um það, eina leiðin til þess að komast að því er að prófa það á sjálfum mér.
Ráðleggingar um mataræði eru margar og mismunandi í dag. Ég er nýbúinn að lesa tvær bækur um mataræði. Önnur sannfærði mig um að ég ætti að fasta á hverjum degi, borða mikið af ávöxtum og grænmeti og helst láta allar dýraafurðir eiga sig. Hin sannfærði mig um að ég ætti að vera rólegur í ávöxtunum, borða mikið af grænmeti og talsvert mikið af dýraafurðum.
Höfundar beggja bóka rökstuddu sitt mál vel, ég trúði þeim báðum þótt þeir væru innilega ósammála hvor öðrum. Ég á vin sem fylgir þriðju leiðinni, hann er grjótharður á því að hún sé sú eina rétta. Hann hefur líka náð að sannfæra mig með rökum um það.
Staðan í dag er einfaldlega sú að það er enginn einn ótvíræður sannleikur með mataræði, það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Besta leiðin til þess að finna það mataræði sem hentar þér, kæri lesandi, er að prófa sig áfram. Velja eina leið og fylgja henni í 25-30 daga. Meta hvað gerir þér gott, hvað ekki.
Ekki láta aðra trufla þig á meðan. Fólk á eftir að freista þín, bjóða þér kökusneið eða kókosbollu. Segðu bara nei takk. Haltu svo áfram að prófa þig áfram. Finndu þína leið.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. mars 2016