23 nemendur brautskráðir frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ
Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram föstudaginn 20. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt.
Að þessu sinni voru 23 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir þrír nemendur og þrír af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði voru brautskráðir 15 nemendur og af hestakjörsviði tveir.
Í ræðu Valgarðs Más Jakobssonar skólameistara kom fram að áhersla á farsæld í kjölfar innleiðingar farsældarlaga hafi verið mjög ofarlega á baugi undanfarið í FMOS. Hópur kennara við skólann hefur einnig sérmenntað sig í mannkostamennt (Character Education) þar sem áherslan er lögð á að efla dygðir eins og forvitni, seiglu, kurteisi og hugrekki og áfram eru áherslur FMOS í kennsluháttum að vekja töluverða athygli erlendis fyrir að vera í fararbroddi og framúrskarandi.
Í vetur var stofnuð ný braut fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og hófu 16 nemendur nám á brautinni í haust og annar eins hópur byrjar nú um áramót. Einnig var stofnuð ný sérnámsbraut fyrir fatlaða einstaklinga með mikla þjónustuþörf sem kallað hefur á töluverðar breytingar á húsnæði.
Að lokum þakkaði skólameistari stúdentum fyrir samstarfið og óskaði þeim hamingju og velfarnaðar í framtíðinni.