Kærleiksvikan haldin 14.-21. febrúar
Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 14.-21. febrúar, frá Valentínusardegi til konudags.
„Þá viku hvetjum við alla til að brydda upp á einhverju skemmtilegu og helst óvenjulegu,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir einn skipuleggjenda. „Vonandi verða allir vinnustaðir bæjarins með eitthvað kærleiksríkt á sinni dagskrá þessa viku.“
Vigdís skorar t.d. á karlmenn að sjá svipinn á elskunni sinni þegar þeir bjóðast til að lakka á þeim táneglurnar.
„Nefndin stendur fyrir nokkrum atriðum. Í ár ætlum við að heiðra Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Sú hefð hefur skapast að einhver í sveitarfélaginu er heiðraður fyrir frábær störf í þágu okkar allra. Í fyrra var það Leikfélagið. Skógræktarfélagið býður okkur upp á þetta dásamlega svæði í Hamrahlíðarskógi sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Koma þar og ganga, kaupa jólatré um jól eða grilla á sumrin. Svo er það nú þessi líka dásamlegi reitur norðanvert í Úlfarsfelli. Einnig vaxandi starfsemi í lundinum uppi í Teigahverfi.
Starfsmenn Ásgarðs eru svo elskulegir að smíða grip sem veittur er þeim sem heiðurinn hlýtur.
Þá verður spákaffi á Kaffihúsinu Álafossi sunnudagana 14. og 21. febrúar kl. 15.
Heilunarguðsþjónustu í Lágafellskirkju þann 18. febrúar kl. 20.
Ungmenni úr Lágafellsskóla og Varmárskóla setja falleg skilaboð á innkaupakerrurnar í Krónunni og Bónus.
Skógræktarfélagið verður svo heiðrað miðvikudaginn 17. febrúar kl. 16.30 í Kjarnanum.
Einnig verður Kærleikssetrið með dagskrá að vanda. Þar verður boðið upp á heilun, nudd, markþjálfun, miðlun, tarotspá, stjörnuspeki og skyggnilýsingar svo eitthvað sé nefnt.“
Dagskrána má svo sjá í heild sinni er nær dregur á Facebook-síðu kærleiksvikunnar og á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.