Íþróttahátíðin

Et, drekk og ver glaðr, segir í Hávamálum og sömuleiðis, Sjaldan liggjandi úlfur lær um getur né sofandi maður sigur. Bæjarhátíð Mosfellsbæjar snýst um þetta. Hreyfingu, næringu og gleði. Það er heldur betur margt í gangi í Mosfellsbænum á bæjarhátíðinni þegar kemur að hreyfingu og hreysti. Hundahlaupið er mætt í bæinn, Ævar Mosverji leiðir göngu á Reykjaborg, fjallahjólakeppnin Fellahringurinn er á sínum stað, nýja hjólabrautin og nýuppfærði frisbí­golfvöllurinn í Ævintýragarðinum verða formlega vígð, meistaraflokkar Aftureldingar í knattspyrnu spila bæði heimaleiki í Lengjudeildinni, það verður frítt í sund í nýuppgerðri Varmárlaug, Afturelding og Gæðabakstur halda stórt mót fyrir 6. og 7. flokk karla og kvenna á Tungubökkum, Tindahlaupið fagnar 15 ára afmæli og fyrsti opni fjölskyldutími vetrarins verður um helgina – svo nokkur dæmi séu nefnd. En það er margt fleira í gangi í íþrótta– og útivistarbænum og það er ýmislegt í gangi sem ekki allir vita af. Það er til dæmis komið borðtennisfélag í bæinn, bardagaíþróttaflóran stækkar og UMFA mun senda meistaraflokkslið karla til leiks í körfubolta.

Ég er búinn að gefa það út að ég ætla, í góðum félagsskap, að prófa æfingu eða tvær hjá öllum þeim sem bjóða upp á skipulagðar æfingar í Mosfellsbæ. Sé fyrir mér að vera eina viku á hverjum stað, kynnast íþróttinni og þeim sem leiða hana og kynna svo í framhaldinu fyrir öðrum bæjarbúum. Ég tek fagnandi á móti upplýsingum og tillögum um íþróttir á gudjons@mos.is.

Knattspyrnutímabilið er að klárast. Kvennalið UMFA er í uppbyggingarfasa og verður áfram í Lengjudeildinni að ári. Karlalið UMFA er þegar örfáar umferðir eru eftir í baráttu um að komast í úrslitakeppni um sæti í Bestu deildinni. Hvíti riddarinn er að berjast fyrir að halda sér í 3. deild og Álafoss átti frábært tímabil í 5. deild og var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni þar.

Hreyfi– og hreysti­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2024