Birgir útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar
Birgir D. Sveinsson fyrrverandi skólastjóri Varmárskóla og stofnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar við hátíðlega athöfn þann 17. júní.
„Ég er snortinn og þakklátur,“ sagði Birgir við afhendinguna en hann er heiðraður fyrir hans mikla framlag til tónlistar- og menningarlífs sem og uppeldismála í Mosfellsbæ.
Birgir D. Sveinsson er fæddur 5. apríl 1939 í Neskaupstað. Hann lauk landsprófi í Vestmannaeyjum og kennaraprófi árið 1960. Samhliða námi stundaði Birgir tónlistarnám og lék á blásturhljóðfæri. Birgir fluttist til Mosfellsbæjar að afloknu kennaraprófi og var kennari við Varmárskóla árin 1960-1977. Hann var yfirkennari 1977-1983 og skólastjóri Varmárskóla 1983-2000.
Þúsundir notið leiðsagnar Birgis
Birgir var fenginn til að kenna drengjum á blásturshljóðfæri haustið 1963 og úr varð drengjahljómsveitin, síðar Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, sem spilaði fyrst opinberlega við vígslu sundlaugarinnar að Varmá, þann 17. júní 1964. Skólahljómsveitin hefur starfað óslitið í 60 ár.
Þá stóð Birgir enn fremur að því að efna til tónlistarkennslu í barnaskólanum sama haust og það starf þróaðist í að stofnaður var tónlistarskóli í Mosfellssveit haustið 1966.
Birgir var stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar í 40 ár eða fram til ársins 2004. Hljómsveitin hefur þjónað tónlistarlegu uppeldi fjölda barna og ungmenna í Mosfellsbæ en jafnframt verið bæjarhljómsveit og komið fram við hin ýmsu hátíðlegu tækifæri.
Það eru þúsundir barna og ungmenna sem hafa notið leiðsagnar Birgis, sem kennara og tónlistarmanns og umsögn fyrrum nemenda er samhljóma um þau góðu áhrif sem Birgir hefur haft á þeirra þroskabraut. Birgir er sagður hafa verið einstakur kennari, þolinmóður, umhyggjusamur og hafa veitt sérhverju barni athygli sína.
Sæmdur stórriddarakrossi 2005
Birgir var formaður Samtaka íslenskra skólahljómsveita í 20 ár en samtökin voru stofnuð í Mosfellsbæ. Hann var útnefndur heiðursfélagi samtakanna árið 2019. Birgir fékk viðurkenningu frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir frábær störf árið 1994.
Árið 2005 var Birgir sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tónlistarkennslu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.