Stríð og friður
Við fengum heimsókn í vikunni. Yuri, Victoria og Margret, yngri dóttir þeirra, eru á landinu og kíktu til okkar. Þau eru frá Rússlandi. Ég kynntist Yuri fyrir mörgum árum þegar ég vann hjá Útflutningsráði Íslands og hann hjá sendiráði Íslands í Moskvu. Við unnum talsvert saman, ferðuðumst með íslensk fyrirtæki til staða sem ég hefði líklega annars aldrei komið til. Kasakstan, Kamchatka og Vladivostok eru nokkur dæmi. Þau fjölskyldan fluttu síðan til Íslands, bjuggu fyrst á Ásbrú í Reykjanesbæ og síðan í Hafnarfirði. Yuri vann við að kaupa og selja togara og Victoria hjá IKEA. Síðan fluttu þau aftur til Rússlands með dætrum sínum, en hafa alltaf haft sterka tengingu við Ísland og hafa komið hingað nokkuð reglulega. Við kynntumst vel gestrisni þeirra og velvilja þegar við fengum, ásamt vinafjölskyldu okkar í Mosfellsbæ, að gista í sumarbústað þeirra hjóna í útjaðri Moskvu þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór þar fram árið 2018. Þau hugsuðu vel um okkur, sýndu okkur fjölskylduvæna staði í Moskvu og gerðu ferðalagið ógleymanlegt í okkar huga.
Þau eru ekki í stríði. Þau vilja frið. En þau stýra ekki Rússlandi og hafa lítil áhrif á gang mála. Við gleymum því oft í umræðunni að íbúar þeirra landa sem eru í stríði vilja það fæstir – hvort sem landið sem þeir tilheyra er að ráðast inn í annað land eða er undir árás. Mér fannst Yuri lýsa þessu vel þegar við ræddum stöðuna. Hann sagði – Rússland og Úkraína voru fyrir ekki svo löngu bræður, svo vinir, svo nágrannar, nú óvinir.
Fólk er bara fólk. Hvaðan sem það kemur. Við hugsum flest eins. Viljum eiga góða fjölskyldu, góða vini og búa í góðu samfélagi. Og góða nágranna sem okkur lyndir við – það vilja fæstir vera í stríði við nágranna sína. Talandi um góða nágranna – takk Lára og Gústi!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. júní 2024