Sameiningarorka
Eitt það besta við íþróttirnar er að þær búa yfir þeim töframætti að geta sameinað fólk. Það er ólýsanlegt að vera hluti af stórum hópi fólks sem er samankominn til þess að styðja eitt og sama liðið til dáða. Lið sem allir í hópnum hafa tengingu við. Tengingarnar ná saman eins og ósýnilegir rafmagnsþræðir, tengja okkur sem erum á pöllunum hvert við annað. Og okkur sem heild við íþróttaliðið okkar úti á vellinum. Það gefur liðinu orku sem síðan endurvarpast á áhorfendapallana. Og þannig eykst þessi sameiginlega orka jafnt og þétt. Við finnum fyrir tengingunum, finnum að við erum í þessu saman.
Vorið er skemmtilegur íþróttatími í Mosfellsbæ. Vetraríþróttirnar eru að ná hámarki og sumaríþróttirnar að byrja. Móðurskip okkar Mosfellinga, Afturelding, heldur úti öflugum félagsliðum í boltaíþróttunum og það eru heldur betur spennandi tímar fram undan hjá þeim. Karla- og kvennalið UMFA í blaki eru bæði komin í undanúrslit í Íslandsmótinu, en úrslitakeppnin er í fullum gangi þessa dagana. Kvennaliðið okkar í handbolta tekur næstu daga og vikur þátt í úrslitakeppni um að halda sæti sínu í efstu deild og karlaliðið, sem endaði deildarkeppnina í öðru sæti, spilar þessa dagana við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Við eigum, ekki enn, meistaraflokka í körfubolta, en íþróttin er mjög vaxandi í Mosfellsbæ og strákarnir í 2009 árganginum eru á meðal bestu liða landsins í dag. Kvenna- og karlaliðin okkar í fótbolta eiga bæði bikarleiki í apríl og Íslandsmótið hefst í byrjun maí.
Ég hvet unga sem aldna Mosfellinga til að mæta sem oftast á völlinn til að styðja okkar lið og upplifa um leið öfluga mosfellska sameiningarorku. Saman getum við náð langt!
Það er líka margt að gerast á vormánuðum hjá hinum íþróttadeildum UMFA – badminton, fimleikar, frjálsar, hjól, karate, sund og taekwondo. Skoðum það og önnur íþróttafélög bæjarins í næsta pistli.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. apríl 2024