Gott að eldast

Guðleif Birna Leifsdóttir

Undirrituð hóf nýlega störf hjá Mosfellsbæ í þróunarverkefni sem er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda sem ber nafnið „Gott að eldast“.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu eftir sveitarfélögum og stofnunum sl. sumar til að taka þátt í þróunarverkefninu og voru Mosfellsbær og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins eitt af þeim sex svæðum sem valin voru til þátttöku en Eir hjúkrunarheimili verður framkvæmdaraðili þjónustunnar á svæðinu.
Markmið verkefnisins er að finna góðar leiðir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Auk þess verður ráðist í aðgerðir sem stuðla að heilbrigðri öldrun og bættum aðgangi að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.
Í þessu þróunarverkefni felast tækifæri og bætt þjónusta fyrir eldra fólk í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós, en það er svæðið sem verkefnið nær til. Áhersla verður á að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun eldra fólks og finna leiðir til að auka virkni og vellíðan íbúa. Með samþættri þjónustu er áherslan á að eldra fólk geti lifað innihaldsríku og sjálfstæðu lífi þrátt fyrir miklar og flóknar þarfir.
Í Mosfellsbæ er boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir eldra fólk, öflugt félagsstarf og stuðning við að búa á eigin heimili þegar heilsu hrakar. Aðgangur er að öldrunarráðgjafa hjá velferðarsviði Mosfellsbæjar og heilsuvernd eldra fólks hjá Heilsugæslunni í Mosfellsbæ.
Í starfi mínu mun ég leitast við að byggja upp tengingar á milli mismunandi þjónustustofnana og skoða hvernig hægt er að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa, auka virkni og leitast við að eldra fólk fái viðeigandi þjónustu sem gerir því kleift að lifa innihaldsríku lífi á eigin heimili.
Velkomið er að hafa samband við undirritaða sem veitir frekari upplýsingar varðandi þróunarverkefnið.

Guðleif Birna Leifsdóttir
tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar
gudleifl@mos.is – s. 525-6700