Þorum að horfa til framtíðar

Lovísa Jónsdóttir

Í desember var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Áætlunin er í senn metnaðarfull og ábyrg í því efnhagslega umhverfi sem nú ríkir.
Það er að mati meirihlutans skynsamlegra þegar kemur að framtíðaruppbygginu að taka sér tíma til að rýna hlutina og endurmeta þarfir sveitarfélagsins reglulega. Þannig að þær fjárfestingar sem ráðist er í séu hugsaðar til næstu 20-30 ára en ekki bara til að leysa bráðavanda. Sem dæmi má nefna að þarfagreining fyrir Varmársvæðið sem var unnin á árunum 2019-2021 gerði ekki ráð fyrir uppbyggingu á Blikastaðalandinu og tilheyrandi fjölgun íbúa.
Meirihluti B, S og C lista í bæjarstjórn vinnur samhentur að því að fylgja þeim markmiðum sem sett voru í málefnasamningi. Í því felst að horfa til framtíðar og gera raunhæfar áætlanir út frá greiningu. Við viljum meta þarfir bæjarbúa, áætla kostnað og fjárfestingargetu, vinna að fjármögnun og svo hefjast handa. Vinnulag sem flest öll fyrirtæki og heimili í landinu viðhafa.

Gjaldskrár og fasteignagjöld
Eins og áður er komið til móts við hækkun fasteignamats með því að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts. Notuð er nákvæmlega sama aðferð og mörg undanfarin ár. Þetta hefur starfsfólk fjármálasviðs ítrekað staðfest.
Milli umræðna í bæjarstjórn lagði meirihlutinn til að hækkun annarra gjalda yrði að meðaltali ekki hærri en 7,5% til að koma til móts við sameiginlega baráttu gegn verðbólgu. Jafnframt lýsti meirihlutinn því skýrt yfir að Mosfellsbær sé reiðubúinn til frekari lækkana ef þjóðarsátt allra aðila vinnumarkaðarins næst. Þessu til staðfestingar var samþykkt yfirlýsing þess efnis í bæjarstjórn í gær.
Sorphirðugjöld skera sig frá í þessum efnum þar sem nýsett lög kalla á breytingar í framkvæmd og krefjast þess að sveitarfélög rukki raunkostnað fyrir sorphirðu.

Breyttir stjórnarhættir
Ítrekað reynir Sjálfstæðisflokkurinn að slá ryki í augu bæjarbúa vegna breytinga á skipuriti. Því hefur meðal annars verið haldið fram að búið sé að stórauka starfsmannafjölda, sérstaklega í yfirstjórn. Hið sanna er hinsvegar að einungis hefur verið fjölgað um eitt stöðugildi í yfirstjórn.
Önnur aukning kemur í kjölfar yfirtöku bæjarins á rekstri Skálatúns og eðlilegrar fjölgunar starfsfólks í fræðslumálum og velferðarþjónustu í takti við aukinn íbúafjölda.
Í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt sem unnin var fyrir bæinn kom margt í ljós sem þurfti að lagfæra í rekstri bæjarins og hefur frekari vinna sýnt þá ríku þörf sem var á að bæta verkferla og ákvarðanatöku.
Mörg gömul þrætuefni hafa verið til lykta leidd og vegur þar þyngst að fundin var lausn á málefnum Skálatúns.

Framtíðarsýn
Það þarf vissulega þor til að breyta vinnuháttum og að hugsa stærra, horfa lengra fram í framtíðina, en við höldum áfram ótrauð, óhrædd og samheldin. Já, við þorum getum og viljum, enda erum við að vinna fyrir bæjarbúa alla.
Með bestu óskum til allra bæjarbúa um farsælt ár og ósk um góða samvinnu og samveru á árinu.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar