Sigurpáll heim í Aftureldingu

Sigurpáll Melberg og Gísli Elvar formaður meistaraflokksráðs knattpsyrnudeildar Aftureldingar.

Sigurpáll Melberg Pálsson hefur gert tveggja ára samning við Aftureldingu og mun spila með liðinu í Lengjudeild karla í fótbolta næsta sumar.
Sigurpáll er 28 ára varnar- og miðjumaður sem lék upp alla yngri flokkana hjá Aftureldingu. Sigurpáll kemur til Aftureldingar frá danska félaginu FA 2000 en hann lék áður með Fjölni, Fram og HK. Samtals hefur Sigurpáll skorað sex mörk í 100 leikjum í næstefstu deild á Íslandi á ferli sínum auk þess sem hann á átján leiki að baki í efstu deild.
„Ég hef fylgst náið með liðinu síðan ég var hérna fyrir átta árum. Ég er hrikalega hrifinn af spilamennsku liðsins og hvernig þetta er innan sem utan vallar. Við eigum ekki að stefna á neitt annað en toppbaráttuna,“ sagði Sigurpáll eftir undirskriftina.
„Það er frábært þegar öflugir leikmenn sem eru uppaldir hjá Aftureldingu vilja koma aftur á heimaslóðir. Sigurpáll hefur æft með okkur undanfarnar vikur og fallið vel inn í hópinn. Sigurpáll er með mikla reynslu sem mun nýtast okkur vel í baráttunni í Lengjudeildinni næsta sumar,“ sagði Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.