Almennings eða afreks?
Við erum svo heppin að það eru til einstaklingar eins og Vésteinn Hafsteinsson sem var í ársbyrjun ráðinn afreksstjóri ÍSÍ, en hann er með mikla reynslu af því að þjálfa afreksmenn í frjálsum íþróttum, meðal annars ólympíumeistara.
Ekki allir er ánægðir að Íslendingar séu að leggja svona mikla áherslu á að búa til íþróttamenn í fremstu röð. Segja að við ættum frekar að leggja meiri áherslu á að fá almenning til að æfa og hreyfa sig.
Ég hlustaði fyrir stuttu á viðtal við Véstein útskýra afreksstefnuna. Ástæðan fyrir því að samfélög ættu að leggja áherslu á að byggja upp og styðja við afreksíþróttafólk væri að afrekin sameina okkur og efla sem hóp. Rannsóknir sýna það og við þurfum svo sem engar rannsóknir, við vitum þetta. Við vitum öll hvað það er gaman þegar íslensku landsliðin og íþróttafólkið okkar gerir vel.
Við í Mosfellsbæ vitum þetta líka – mæting bæjarbúa á úrslitaleiki og stemmingin í bænum þegar liðin okkar eru í toppbaráttu sýnir það skýrt. Þau eru fulltrúar okkar, eru að keppa fyrir okkar hönd, leggja á sig fórnir og erfiði fyrir okkar hönd og við kunnum að meta það.
Árangur okkar fólks er líka hvatning fyrir okkur hin að æfa og hreyfa okkur. Það byrja til dæmis fleiri að æfa handbolta í yngri flokkunum þegar meistaraflokkunum gengur vel.
Og það sem kannski mörgum kemur á óvart, Vésteinn segir bestu og farsælustu afreksstefnuna byggjast á því að leyfa efnilegum íþróttabörnum og -unglingum að stunda fleiri en eina íþrótt fram til allavega 15-16 ára aldurs. Þau eiga að hafa gaman af því að æfa og keppa og fá frelsi til þess að lifa eðlilegu lífi, alls ekki byrja að sérhæfa sig eða fórna öllu fyrir mögulegan árangur í einni íþrótt of snemma.
Svarið við spurningunni, almennings eða afreks, bæði takk!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. desember 2023