Uppbygging að Varmá – tafir og svikin loforð
Í ljósi þeirrar dapurlegu staðreyndar að Afturelding er búin að segja sig úr samráðsvettvangi Mosfellsbæjar og Aftureldingar er mikilvægt að koma á framfæri eftirfarandi staðreyndum.
Á síðasta kjörtímabili starfaði samráðsvettvangurinn að því að ná samkomulagi milli Mosfellsbæjar og Aftureldingar um heildarsýn og forgangsröðun að uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá. Samkomulag náðist sem var samþykkt af Mosfellsbæ og öllum formönnum Aftureldingar. Framkvæmdir áttu að hefjast sumarið 2022 við fyrsta áfanga uppbygginar sem var bygging þjónustuhúss með stórum nútíma búningsklefum, fundarsölum, stórri móttöku o.fl.
Á þessum tíma var verið að ljúka við byggingu knatthúss að Varmá, auk þess sem allsherjar nauðsynleg og tímabær endurnýjun á íþróttamiðstöðinni fór fram sem var m.a. fólgin í að endurnýja gólfefni í öllum íþróttasölum, skipta um lýsingu, taka í gegn búningsklefa, endurnýja gervisgrasvöll, endurnýjun á Tungubökkum auk fleiri framkvæmda.
Eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta eftir að þau tóku við var að fresta byggingu hússins og tók þá við harmsaga þeirra í málefnum Aftureldingar sem engan enda virðist ætla að taka.
Kosningaloforðin reyndust kostnarsöm
Fulltrúar í nýjum meirihluta lofuðu ýmsu fögru fyrir kosningar og ekkert lát var á. Ákveðið var að fresta byggingu hússins og kynna nýjar teikningar að stærri byggingu sem áttu að liggja fyrir að nokkrum vikum liðnum.
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn lögðu til að farið yrði í samningaferli við verktaka um byggingu hússins og skoðað yrði samhliða hvort breyta ætti hönnun ef það væri talið til bóta, því ljóst var að okkar mati að ella myndi bygging hússins tefjast um 2-3 ár að minnsta kosti.
Því var hafnað af meirihlutanum og lögðum við þá næst fram tillögu um að skoða það að breyta forgangsröðun í samráði við Aftureldingu og byrja þannig strax á hönnun og endurnýjun á aðalvellinum til að nýta tímann sem best og það fjármagn sem þegar var til staðar í fjárhagsáætlun ársins.
Þeirri tillögu okkar var einnig hafnað og síðan hefur því miður lítið sem ekkert gerst í áformum um uppbyggingu að Varmá.
Á þessum tímapunkti var meirihlutinn að átta sig á að kosningaloforðin og fagurgalinn um að allt ætti að vera stærra og betra en áður hafði verið samþykkt kostaði töluvert meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Breytt forgangsröðun án samráðs við Aftureldingu
Það var svo á bæjarstjórnarfundi þann 8. nóvember, þegar fyrri umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 fór fram, sem tillaga kom frá meirihlutanum um að setja 700 milljónir í nýjan völl að Varmá, framkvæmd sem ekki hefur verið hönnuð eða boðin út. Tillaga þessi er án aðkomu Aftureldingar og þar með í ósamræmi við það samkomulag sem var gert og er í gildi um forgangsröðun uppbyggingar á svæðinu.
Fulltrúar Aftureldingar í samráðsvettvangi hafa á sl. 16 mánuðum ítrekað óskað upplýsinga um stöðuna, hvort þau gætu fengið nýja tímalínu framkvæmda og hvort ákvörðun hafi verið tekin um forgangsröðun á framkvæmdum. En engin svör hafa fengist.
Framkoma meirihlutans í þessu máli hefur borið með sér vanvirðingu við þá vinnu sem þegar hefur verið unnin varðandi fyrirhugaða uppbyggingu að Varmá og ekki síður gagnvart sjálfboðaliðum í stjórnum félagsins. Þá hafa þessi vinnubrögð kostað bæði tafir og aukinn kostnað, svo ekki sé minnst á
þá óeiningu sem skapaðist innan Aftureldingar vegna einhliða breytinga á forgangsröðun og sífelldra tafa.
Fulltrúar meirihlutans þurfa að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp í samskiptum við Aftureldingu.
Félagið er gríðarlega mikilvægur hornsteinn í okkar samfélagi og vonandi fer sú uppbygging að Varmá sem hefjast átti sumarið 2022 í gang sem allra fyrst.
Við fulltrúar D-lista í bæjarstjórn munum halda áfram að koma með tillögur til að flýta því ferli og vonandi verður þeim ekki öllum ýtt út af borðinu eins og hingað til.
Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista