Viðsnúningur í rekstri Mosfellsbæjar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Við búum við krefjandi efnahagslegar aðstæður með mikilli verðbólgu. Þess vegna er einstaklega ánægjulegt að geta lagt fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem gerir ráð fyrir afgangi upp á rúmlega 900 m.kr.
Þessum árangri náum við án þess að skera niður í þjónustu bæjarfélagsins við íbúa heldur þvert á móti þá verður þjónustan áfram efld og bætt í þágu allra íbúa.
Þegar tillaga að fjárhagsáætlun lá fyrir var það mat bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar að svigrúm væri til að lækka álögur frekar og lagði því meirihlutinn til að hækkanir á gjaldskrám yrðu hóflegri en verðlagsþróun. Með þessari lækkun viljum við leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn verðbólgunni.

Barnvænt samfélag í raun
Áfram verða leikskólagjöld og fæðiskostnaður í skólum Mosfellsbæjar þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu en þjónustan áfram framúrskarandi. Í fjárhagsáætlun ársins tryggjum við áframhaldandi vinnu við farsæld barna, innleiðingu menntastefnu, eflingu stoðþjónustu og fleiri verkefni í þágu barna og starfsfólks.
En við einblínum ekki einungis á verkefni stjórnsýslunnar heldur setjum barnafjölskyldur raunverulega í forgang með því að takmarka hækkun gjaldskrár um áramótin svo hún verði minni en verðlagsþróun.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bætt þjónusta
Áfram verður unnið úr umbótatillögum í rekstri og stjórnsýslu Mosfellsbæjar sem þegar hafa skilað bættri stafrænni þjónustu hjá bænum. Gert er ráð fyrir því að á næsta ári verið unnið í velferðartækni og tengist sú vinna m.a. verkefninu Gott að eldast – samþætting stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar sem Mosfellsbær valdist til þátttöku í af Heilbrigðisráðuneytinu.
Fjárfestingaáætlun næsta árs er talsvert stór en þar leggjum við megináherslu á uppbyggingu nauðsynlegra innviða eins og leikskóla í Helgafellshverfi og innréttingar í íþróttahúsið við Helgafellsskóla. Áfram verður unnið í nauðsynlegu viðhaldi á byggingum bæjarins, sérstaklega skóla- og íþróttabyggingum ásamt því að aðalvöllurinn að Varmá verður endurgerður. Þá verður farið í spennandi verkefni eins og hugmyndavinnu vegna rammaskipulags miðbæjar.

Lækkum álögur á heimilin
Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar er kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans.
Fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar að meðaltali um 13% á næsta ári en í fjárhagsáætlun er miðað við að hækkunin takmarkist við 9,81%.

Lovísa Jónsdóttir

Atvinnuhúsnæði
Nýlega samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið og vill meirihlutinn vinna að því að efla atvinnulíf í Mosfellsbæ. Til þess að ná þessu markmiði er mikilvægt að bæjarfélagið sé samkeppnishæft við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og því var ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði talsvert.

Mosfellsbær er mannvænn bær
Það verður áfram gott að búa í Mosfellsbæ á komandi árum og við erum sérstaklega stolt af því hversu vel hefur tekist að styðja við og þjónusta barnafjölskyldur í bænum. Þá er ánægjulegt að geta haldið gjaldskrárhækkunum í hófi þannig að allir íbúar njóti góðs af.
Það kostar vissulega að reka gott samfélag en fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sýnir skýrlega hvernig ábyrg fjármálastjórn getur skilað bættri þjónustu á sama tíma og álögur eru lækkaðar.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar