Hvert næst?
Við fórum 14 saman úr Kettlebells Iceland æfingahópnum til Austurríkis um síðustu helgi til að taka þátt í Spartan Race þrautahlaupi. Kaprun þrautahlaupið þykir með þeim erfiðari en það fer að mestu fram í háum skíðabrekkum og hækkunin mikil. Þrautirnar eru fjölbreyttar og flestar krefjandi. Þetta var frábær ferð, allir kláruðu sín hlaup með stæl og komu stoltir og ánægðir í mark.
Þetta var erfitt. Það verður að segjast. Það erfiðasta sem ég hef gert, sagði einn. Við þurftum öll að kafa djúpt í orkubrunninn til þess að klára þetta. Sumir föðmuðu tré og fögnuðu hinu kyngimagnaða umhverfi, aðrir blótuðu og tóku erfiðustu kaflana á uppsafnaðri reiðiorku. Báðar aðferðir virkuðu.
Það sem mér finnst skemmtilegast og mest gefandi við að taka þátt í svona áskorunum með góðu fólki er sjá fólki takast að gera hluti sem það hélt einhvern tíma að það gæti ekki. Það er ekkert sem toppar það. Mér finnst líka ótrúlega gaman að leysa þrautirnar, klára þær og ef ég næ ekki að klára þær, finna leiðir til þess að gera það í næsta þrautahlaupi. Greina hvað ég þarf að bæta og æfa það reglulega. Ég einbeitti mér að því fyrir þetta þrautahlaup, að æfa mig fyrir ákveðnar þrautir sem ég hafði verið í veseni með í síðustu þrautum. Og tilfinningin að upplifa það takast var geggjuð, ólýsanleg eiginlega.
En þessi félagsskapur, maður lifandi! Margar sögur eiga eftir að lifa lengi, bjallan á toppnum, straumharða áin og ljónhressi hvetjarinn svo nokkrar séu nefndar. Það er magnað að vera í félagsskap fólks sem er til í svona léttruglaðar áskoranir, þorir að stíga út fyrir þægindarammann og búa saman til orku sem er hvetjandi fyrir einstaklingana í hópnum. Það tók okkur ekki langan tíma að byrja að pæla í næsta þrautahlaupi, spurningin er ekki hvort heldur hvenær!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. september 2023