Mosfellingar velji sér prest
Nú í byrjun árs liggur fyrir að auglýst verði staða prests við Mosfellsprestakall. Samkvæmt starfsreglum um val og veitingu prestsembætta velur valnefnd prest nema óskað sé eftir almennri kosningu í prestakallinu.
Það vill brenna við að þeir umsækjendur sem lengst hafa þjónað sem prestar fái auglýstar stöður, burt séð frá því hversu vel þeir þekkja til sóknarinnar eða hversu kraftmiklir og vel liðnir þeir eru.
Það ætti að skipta íbúa sóknarinnar máli að næsti prestur verði prestur sem flest sóknarbörn þekkja til og treysta og ættu því að fá tækifæri til að velja sér þann prest sjálf. Það er mögulegt með því að safna undirskriftum þriðjungs kosningabærra sóknarbarna um að fram fari almenn prestskosning.
Undirrituð eru þess fullviss að séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn sé vel til þess fallin að verða prestur í Mosfellsprestakalli. Hún hefur starfað við Lágafellsókn á annan áratug við góðan orðstír. Hún hefur verið meðhjálpari og kirkjuvörður í átta ár, stýrt foreldramorgnum, komið að fermingarfræðslu og leyst presta sóknarinnar af eftir að hún sjálf hlaut vígslu til Kvennakirkjunnar árið 2013. Arndís er borinn og barnfæddur Mosfellingur, hún er vel liðin innan sóknarinnar og hefur mætt sóknarbörnum af alúð, einlægni og virðingu alla tíð.
Við hvetjum íbúa í Mosfellsprestakalli til að sameinast um val á presti fyrir okkur sjálf, presti fólksins, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Því óskum við eftir að fram fari prestskosningar í prestakallinu og teljum séra Arndísi verðugan þjón kirkjunnar.
Bryndís Haraldsdóttir
Elísabet Jónsdóttir
Hilmar Bergmann
Karl Tómasson
Katrín Sigurðardóttir
Magnús Sigsteinsson
Úlfhildur Geirsdóttir