Farið fram á prestskosningu

disalinn

Sr. Skírnir Garðarsson hefur látið af störfum í Lágafellssókn en hann hefur starfað við hlið Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests síðastliðin tæp sjö ár. Staða prests í Mosfellsprestakalli er því laus til umsóknar og ljóst þykir að brauðið verði eftirsóknarvert.
Talsvert hefur verið fjallað um málefni sóknarinnar á síðustu vikum en bæði Skírnir og Ragnheiður hafa verið í leyfi frá störfum síðustu vikur vegna óánægju innan sóknarinnar. Tveir afleysingaprestar hafa þjónað Mosfellingum yfir hátíðarnar.

Kosningar færast í vöxt
Samkvæmt starfsreglum um val á presti fer almenn prestskosning fram, riti þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna undir viljayfirlýsingu þess efnis. Það þýðir að safna þarf um 2.000 undirskriftum.
Stuðningshópur Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn er farinn af stað með undir­skriftasöfnun en færst hefur í vöxt að sóknarbörn leiti þessarar leiðar og fari fram á prestskosningu í stað þess að valnefnd velji prest.

Mosfellingar hafi val
„Við vonumst til þess að Mosfellingar taki þessari áskorun vel og vilji hafa um það að segja hver muni gegna stöðu prests í sókninni,“ segir Helga Kristín Magnúsdóttir talsmaður stuðningshóps Arndísar Linn.
„Við erum ekki í neinum vafa um það hver er best til þess fallin að verða prestur í Lágafellssókn. Það er hún Arndís Linn sem starfað hefur við sóknina í fjölda ára. Hún er rótgróinn Mosfellingur og vel liðin meðal sóknarbarna. Okkur finnst vega þyngra að viðkomandi sé í sterkum tengslum við sína heimabyggð heldur en starfsreynsla í árum talið innan þjóðkirkjunnar.
Við erum vongóð um að við náum tilteknum fjölda undirskrifta og kosningar fari fram. Með undirskrift um prestskosningu er þó ekki verið að lýsa yfir stuðningi við einn frambjóðanda frekar en annan. Heldur er verið að fara fram á að Mosfellingar hafi val og láti sig málefni sóknarinnar hér í bæ varða,“ segir Helga Kristín.
Á næstu dögum verður gengið í hús og safnað undirskriftum en listi mun einnig liggja frammi í Fiskbúðinni Mos.

—–

Stuðningshópur Arndísar Linn hefur stigið fram og vill prestskosningu. Arndís hefur starfað við Lágafellssókn á annan áratug. Hún útskrifaðist sem guðfræðingur 2008 og var vígð til prestsþjónustu í Kvennakirkjunni 2013.