Mjög vel tekið á móti okkur
Valur Oddsson húsasmiður flutti upp á land eftir gosið í Eyjum 1973.
Gosið á Heimaey í Vestmannaeyjum hófst aðfaranótt 23. janúar 1973 og stóð yfir í rúmlega fimm mánuði. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar eða tæplega 400 hús og byggingar. Flestir íbúarnir flúðu til meginlandsins og biðu milli vonar og ótta eftir því hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Einn af þeim sem flutti með fjölskyldu sína er Valur Oddsson, þau fluttu ásamt fleirum íbúum í Mosfellssveit. Hann segist verða ævinlega þakklátur fyrir þær góðu móttökur sem Vestmannaeyingum voru sýndar hér.
Valur er fæddur í Vestmannaeyjum 27. júlí 1942. Foreldrar hans eru Magnea Lovísa Magnúsdóttir húsmóðir og verkakona og Oddur Sigurðsson skipstjóri.
Bræður Vals eru Magnús f. 1934 og Sigurður Pétur, ávallt kallaður Bói, f. 1936 en þeir eru báðir látnir.
Ólst upp við frjálsræði
„Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og það var gott að alast upp þar við algjört frjálsræði, einu skyldurnar voru að koma inn á réttum tíma í mat og kaffi.
Fjöllin og bryggjan heilluðu mest, við vinirnir tókum oft árabáta traustataki og rérum út að Löngu, eins mokuðum við flæðigarða í fjörunni og biðum eftir að sjórinn flæddi inn. Við veiddum einn og einn smáufsa á bryggjunni og stundum marhnút en það þótti mikil hneisa, maður reyndi að láta lítið á því bera,“ segir Valur og brosir.
„Lífið á eyjunni breyttist alltaf í byrjun janúar þegar um 2.000 sjómenn og verkafólk komu á vertíð. Þá kom fleira fólk inn á heimilið og ættingjar ofan af landi komu gjarnan í kaffi á frídögum.“
Beitti bjóð á línu
„Ég gekk í barna- og gagnfræðaskólann og mér leið ágætlega í skóla en hann þvældist pínu fyrir mér þegar líða tók á vertíðirnar. Þá átti maður nefnilega möguleika á að beita eitt og eitt bjóð á línu og fá borgað fyrir það, svo þurfti maður að fara á bryggjuna til að fylgjast með hvernig fiskaðist.
Fyrsta vinnan mín var að breiða saltfisk, þá var ég 11 ára, ég fór sjálfur og bankaði upp á hjá verkstjóranum til að fá vinnu. Við krakkarnir unnum með eldri borgurum sem voru hætt að vinna en fóru í þessa íhlaupavinnu, þau leiðbeindu okkur. Þetta var einhver besta unglingavinna sem hægt var að hugsa sér. Þegar þessu lauk fór ég í frystihúsin, það fannst mér drepleiðinleg vinna.“
Aðstaðan mjög bágborin
„Árið 1958 fór ég á sjó, réri til að byrja með með Bóa bróður og pabba á vertíðum og þess á milli var ég á Halkion 46, 100 og 250 tonna, eða fram til ársins 1963.
Á þessum tíma var öll aðstaða á bátunum bágborin, hreinlætisaðstaðan engin og fata til að gera þarfir sínar í. Í lúkarnum sváfu menn í kojum í öllum fötunum og þar var líka eldað og borðað. Með tímanum batnaði aðstaðan, það var komið klósett og hvalbakur sem skýldi okkur við vinnuna.
Á þessum árum tók ég þátt í að bjarga 18 mönnum, tveimur skipshöfnum í tveimur sjóslysum, en því miður fórust tveir í öðru slysinu.
Árið 1963 byrjaði ég á Ísleifi 4 og síðar á Ísleifi, það aflaðist einhver ósköp á þessum skipum, síldin var í hámarki fyrir austan. Þetta var minn skemmtilegasti tími á sjó með óskaplega góðri áhöfn sem enn heldur hópinn. Ég var á sjó fram undir 1970 en þá fór ég að læra húsasmíði í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum.“
Þyngstu spor sem ég hef stigið
„Árið 1968 féll Bói bróðir milli skips og bryggju í Aberdeen en hann var á leið með skipið sitt í vélarskipti til Noregs. Pabbi var til sjós með Bóa þegar slysið varð en það liðu nokkrar vikur þangað til hann fannst látinn. Þetta var hræðilegur tími, algjör óvissa og það var reynt að halda í vonina fram á síðustu stundu.
Bói var hvers manns hugljúfi, giftur og átti þrjá drengi sem þarna voru 6, 7 og 8 ára. Amma okkar lést á meðan leitað var að Bóa og þau voru jörðuð saman. Það voru þung spor, líklega þau þyngstu sem ég hef stigið,“ segir Valur alvarlegur á svip.
Stóðu uppi heimilislaus
Eiginkona Vals er Kristín Stefánsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður, hún lést árið 2015. Dætur þeirra eru Ingibjörg f. 1970 og Ásdís f. 1976.
„Við Kristín kynntumst um borð í Gullfossi árið 1965, hún var úr Reykjavík en átti ættir að rekja til Eyja. Eftir að við giftum okkur þá bjuggum við okkur heimili í Vestmannaeyjum sem síðar fór undir hraun í gosinu 1973. Þá stóðum við hjónin uppi heimilislaus ásamt dóttur okkar sem var þriggja ára og það var ekkert annað í stöðunni en að flytja upp á land.
Fluttu í Mosfellssveit
„Sveitastjórn Mosfellshrepps með Jón á Reykjum og Hrólf Ingólfsson í fararbroddi buðu okkur sem misst höfðum húsin okkar lóðir við Arnartanga. Verkið var boðið út og sama fyrirtækið byggði flest einbýlishúsin sem þar standa. Þegar kom að því að borga lóðirnar var ekki búið að greiða út bætur úr Viðlagasjóði. Ólafur Helgason bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum lánaði öllum án þess að hafa veð, sem er væntanlega fáheyrt. Arnartanginn var því nokkurs konar útibú frá Vestmannaeyjum.
Það var mjög vel tekið á móti okkur öllum hér í Mosfellssveit og við hjónin fluttum í Arnartanga 1975. Hér bjuggu um 1.100 manns og okkur leið eins og við værum flutt á hjara veraldar. Við náðum þó fljótt að samlagast bæjarbragnum og ég gæti hvergi annars staðar hugsað mér að eiga heima, en ég fer líka mikið á mínar æskuslóðir. Dætur mínar og fjölskyldur búa hér líka og við höldum vel hvert um annað.
Eftir að ég flutti upp á land þá fór ég að vinna við smíðar, hóf síðan störf hjá Borgarspítalanum þar sem ég starfaði í 30 ár með góðum félögum. Síðustu þrjú árin áður en ég fór á eftirlaun starfaði ég hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og sinnti viðhaldi á eignum borgarinnar.“
Góðar stundir í Suðurey
„Lundaveiði hefur fylgt mér nánast alla ævi,“ segir Valur aðspurður um áhugamálin. „Ég fór fyrst í útey 5 ára. Ég veiði í Suðurey og það er mikill félagsskapur í kringum veiðina, sá góði hópur hefur gefið mér afskaplega mikið.
Ég hef spilað golf í 30 ár og svo byrjaði ég að stunda líkamsrækt fyrir nokkrum árum. Ég les líka mikið og nýti mér Storytel inn á milli. Ég var „forseti“ Gufufélags Mosfellsbæjar í tuttugu ár eða svo, það var afskaplega skemmtilegur félagsskapur. Svo sat ég í byggingarnefnd Mosfellsbæjar í fjögur ár og í yfirkjörstjórn í 16 ár fyrir Samfylkinguna þar sem ég hef hitt fyrir margt vandað og gott fólk sem hefur reynst mér vel.
Fyrir utan þessi hefðbundnu áhugamál er ég mjög áhugasamur um fjölskylduna mína og vil gjarnan verja sem mestum tíma með þeim og mínum mörgu og góðu vinum,“ segir Valur og brosir er við kveðjumst.