Úthlutun lóða við Úugötu í 5. áfanga Helgafellshverfis
Mosfellsbær hefur ákveðið úthlutunarskilmála og lágmarksverð lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis. Innan 5. áfanga verða fjölbreyttar gerðir íbúða sem mynda blandaða byggð í hlíð á móti suðri.
Í þessari úthlutun er óskað eftir tilboðum í byggingarrétt annars vegar fjögurra fjölbýla með 12 íbúðum hvert, alls 48 íbúðir, og hins vegar sjö raðhúsa, alls 24 íbúðir.
Hverri lóð verður úthlutað til þess aðila sem gerir hæst tilboð í viðkomandi lóð, enda uppfylli viðkomandi aðilar skilyrði um fjárhagslegt hæfi.
Bæði einstaklingar og lögaðilar geta lagt fram tilboð í byggingarrétt lóða en hver umsækjandi getur þó aðeins lagt fram eitt tilboð í hverja lóð.
Áformað er að síðari úthlutun lóða á svæðinu, sem eru að mestu einbýlishúsa- og parhúsalóðir, fari fram næsta haust. Sú úthlutun verður auglýst síðar.
Nánari upplýsingar eins og mæliblöð, hæðarblöð, greinargerð deiliskipulags og uppdrætti er að finna á vef Mosfellsbæjar.