Endurnýjanleg orka
Þjóðir heims gerðu með sér sögulegt samkomulag í París í síðustu viku. Það snýst um að hugsa betur um jörðina á margvíslegan hátt, meðal annars með því að einblína á endurnýjanlega orkugjafa. Vindorku frekar en olíu, til dæmis. Vonandi munu allir standa sig í stykkinu svo sett markmið náist.
Ég er mjög mikið að velta fyrir mér orku núna. Mér fannst ég sjálfur óvenjulega orkulítill í seinni hluta nóvember, tók sjálfan mig í greiningu og ákvað að gera breytingar. Fyrsta skrefið var kaffið. Mér finnst gott kaffi mjög gott. En ég á erfitt með að halda mér innan skynsamlegra kaffimarka og þarna í nóvember var ég farinn að drekka ansi marga kaffibolla á hverjum degi. Ég ákvað að hætta alveg að drekka kaffi og sjá hvaða áhrif það hefði.
Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðir, hausverkur og önnur fráhvarfseinkenni, magnað hvað kaffið slær mann þegar maður hættir að drekka það. Er núna á þriðju viku, sakna svarta vökvans lítið. Breytti líka aðeins til í mataræðinu, borða núna sem dæmi bara ávexti fyrir hádegi. Þessar tvær breytingar eru að gera mér gott, ég finn það, sef betur og er allur einbeittari. Fyrir mér er líkaminn eins og jörðin, við eigum að hugsa jafn vel um okkur sjálf og jörðina. Jörðin hefur sinn ryðma, við okkar. Við eigum að vakna úthvíld eftir góðan nætursvefn, borða passlega og rétt, hreyfa okkur sem mest og styrkja okkur líkamlega.
Þetta er grunnurinn að góðu lífi, góð líkamleg orka. Góð líkamleg orka gefur okkur kraft til þess að sinna verkefnum og áskorunum dagsins og gott betur. Við fáum aukaorku til þess að gera eitthvað skemmtilegt með okkar nánustu og sinna skapandi og gefandi hlutum. Við höfum eina jörð og verðum að fara vel með hana. Þú hefur bara einn líkama, farðu vel með hann.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. desember 2015