Eru fjármál Mosfellsbæjar komin í rugl?
Þann 10. janúar 2023 sendi ég svohljóðandi tölvupóst til allra bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ:
„Sælir allir bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.
Ég var að skoða hvað ég á að reikna með að þurfa að greiða í fasteignagjöld til Mosfellsbæjar á árinu 2023. Mig rak í rogastans. Hér til hliðar er tafla sem sýnir fasteignagjöld mín vegna Akurholts 1 árið 2022 og árið 2023.
Taflan sýnir að:
Fasteignaskattur hækkar um 27,3%
Lóðaleiga hækkar um 28,7%
Sorpgjald hækkar um 16,1%
Vatnsgjald hækkar um 23,0%
Fráveitugjald hækkar um 25,5%
Ég mótmæli þessum yfirgengilegu hækkunum og skora á alla bæjarfulltrúa að takast á við rekstur bæjarins af meiri hagsýni og festu en lesa má út úr þeim gerræðislegu skattaálögum sem fram koma hér að framan.
Kveðja,
Hákon Björnsson
Akurholti 1“
Sama dag og ég sendi þennan tölvupóst til bæjarfulltrúanna fékk ég viðbrögð frá Ásgeiri Sveinssyni oddvita Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn þar sem hann bregst við tölvupósti mínum fyrir hönd bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna. Í tölvupóstinum segir Ásgeir að Sjálfstæðismenn í bæjartjórn hafi barist „með kjafti og klóm“ gegn svo miklum hækkunum á fasteignagjöldum.
Ég hef engin viðbrögð fengið frá öðrum bæjarfulltrúum.
Ofangreindar hækkanir á fasteignaskatti og lóðaleigu eru langt umfram almennar kostnaðarhækkanir. Hafa ber sérstaklega í huga að 27–29% hækkun á þessum gjöldum er langt umfram launahækkanir og er bein árás á lífskjör fólks.
Sorpgjald, vatnsgjald og fráveitugjöld eru þjónustugjöld sem eiga að standa undir rekstri á sorphirðu, neysluvatnskerfi og fráveitukerfi. Þegar þessi gjöld hækka um 16–25,5% spyr maður sig hvað sé að gerast. Er kostnaður við rekstur þessara málaflokka farinn úr böndunum? Eru fjármál og rekstur Mosfellsbæjar komin í rugl?
Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn verða að koma með rökstuddar skýringar á þessu miklu hækkunum. Kannski er skýringin að þeir bæjarfulltrúar sem skipa meirihlutann í bæjarstjórn eru ekki þeim vanda vaxnir að bera ábyrgð á rekstri Mosfellsbæjar.
Hákon Björnsson