Ámælisvert
Þegar ekinn er Langitangi á móts við Olís blasir vægast sagt furðulegt fyrirbæri við. Tvö vestustu húsin við Bjarkarholt hafa verið jöfnuð við jörðu og allur trjágróðurinn sem hafði verið gróðursettur með mikilli alúð af fyrri eigendum lóðanna allur upprættur.
Viðurstyggð eyðileggingarinnar hefur blasið við okkur í allan vetur og er framkvæmdaraðila til mjög mikils vansa. Af hverju mátti gróðurinn ekki veita skjól yfir vetrarmánuðina og upprættur skömmu áður en framkvæmdir eiga að hefjast?
Undir lágnætti laugardagsins 4. febrúar mátti heyra allþétta flugeldaskothríð suður af viðlagasjóðshúsunum við Arnartanga þar sem ég hef búið undanfarin 40 ár. Þessi dagsetning var nákvæmlega fimm vikum á eftir gamlársdegi og það er eins og viðkomandi sem málið varðar hafi gleymt sér gjörsamlega.
Hvað vakir fyrir honum að valda samborgurum sínum röskun á svefni og kyrrð? Margt eldra fólk á oft erfitt með svefn og er viðkvæmt fyrir sérhverri röskun í nánasta umhverfi sínu. Sjálfsánægja einhvers sem vill láta á sér bera má aldrei bera skynsemina ofurliði.
Flugeldum má einungis skjóta á loft upp á gamlársdegi og kannski þrettándanum en ekki aðra daga. Lögreglusamþykktir landsins taka á þessu og kannski er sérstök ástæða fyrir bæjarstjórn Mosfellsbæjar að taka þetta mál til skoðunar. Kannski þarf að minna betur á þetta bann og benda á viðurlög sem kunna að varða. Kannski verði að herða þau, gera virkari og fylgja betur eftir.
Kannski væri hyggilegast að banna alfarið sölu og notkun flugelda og blysa. Þessir hlutir hafa reynst mörgum hættulegir og valdið oft slysum og meinsemdum. Þá er mengunin umtalsverð og er miður að sjá allt draslið langt fram á vor eftir skotglaða samborgara sem gleðjast yfir augnablikinu meðan ljósadýrðin stendur yfir. Víða erlendis er notkun flugelda stranglega bönnuð af ýmsum ástæðum og er það ekki að tilefnalausu.
Björgunarsveitirnar eiga að finna sér betri og skynsamari tekjustofna. Þær eiga að hætta við sölu flugelda sem fram að þessu hefur verið einn megintekjustofn björgunarsveitanna.
Loftmengunin hefur verið mjög vanmetin á Íslandi enda telja margir að Ísland sé „hreinasta“ land heims hversu mikil skammsýni sú skoðun sýnir.
Við eigum að stuðla að heilbrigðara lífi og virðingu fyrir náttúru sem og umhverfi okkar. Þar með aukum við lífsgæði okkar allra og eigum betra mannlíf meðal samborgara okkar. Við eigum ekki að valda neinum öðrum vandræðum eða leggja óþarfa steina í götur annarra.
Berum fyllstu virðingu fyrir umhverfinu og samfélaginu.
Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com