Hlégarður – næstu skref
Fyrsti fundur menningar- og lýðræðisnefndar var haldinn 15. nóvember sl. en nefndin hét áður menningar- og nýsköpunarnefnd.
Hin nýja nefnd fer með menningar- og lýðræðismál og á meðal annars að gera tillögur til bæjarstjórnar um menningarmál, um stefnu í lýðræðismálum, hafa eftirlit með starfsemi stofnana sem vinna að menningarmálum og fleira.
Á fyrsta fundi nefndarinnar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að farið yrði í framkvæmdir á sviði Hlégarðs og því breytt þannig að hljóðburður þar sé það góður, að hægt sé að bjóða upp á ólíka tónlistar- og menningarstarfsemi í húsinu. Einnig var lagt til að skoðað verði að setja fellistúku sem hægt væri að nýta fyrir viðburði í húsinu. Þessum tillögum var synjað með þremur atkvæðum meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.
Tillögur þessar voru lagðar fram þar sem það er mat okkar og margra annarra, að Hlégarð sé hægt að nýta mun betur og meira en nú er gert, og að húsið bjóði upp á mikla möguleika í þágu allra bæjarbúa og gesta. Fyrstu skrefin að okkar mati í þeirri vinnu eru að laga sviðið í húsinu og aðstöðu í sætum til að taka á móti gestum.
Samkvæmt bókun meirihlutans liggur ekki fyrir hvaða starfsemi húsið á að hýsa, né hver á að sjá um reksturinn. Stefnumótum stendur nú yfir varðandi þessi mál og bíðum við spennt eftir niðurstöðu þeirra stefnumótunarvinnu.
Franklín Ernir Kristjánsson og Helga Möller
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og lýðræðisnefnd