Aldursvænt samfélag
Í hvernig samfélagi viljum við búa? Sennilega viljum við öll búa í samfélagi þar sem við upplifum að við séum virt að verðleikum og að þörfum okkar sé mætt þar sem við erum stödd hverju sinni.
Meðalaldur landsmanna fer hækkandi og það er fagnaðarefni. Fjölgun eldri borgara kallar á aukinn fjölbreytileika í þjónustu fyrir þann hóp og mikilvægt er að hafa í huga að eitt hentar ekki öllum.
Það er mjög mikilvægt að einstaklingar sem komnir eru á eftirlaun upplifi að þeir séu enn virkir þátttakendur í samfélaginu hvort sem það er í félagslegu, hagrænu eða menningarlegu tilliti. Einnig að þeim standi til boða stuðningur, örvun og þjálfun svo hreyfigeta verði eins og best verður á kosið og andlega hliðin blómstri.
Í bæjarfélaginu okkar er nú þegar verið að gera marga góða hluti eins og allt það öfluga starf eldri borgara sem fer fram hjá FAMOS ber glöggt vitni um. Mosfellsbær býður einnig þeim sem þess þurfa upp á stuðningsþjónustu sem aðstoðar fólk við daglegt líf og heimsendingu á mat.
Ekki má heldur gleyma að fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er í boði fyrir eldri borgara hér í bæ. Þá er við hæfi að minna hér á frístundaávísun fyrir eldri borgara og hvetja til þess að eldri bæjarbúar nýti sér hana.
Að mörgu að hyggja
Við í Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn viljum þó gera enn betur og ætlum okkur að gera það. Einn grunnþáttur í því að gera betur er að við ætlum að efla starfsemi öldungaráðs þannig að það geti betur sinnt sínu skilgreinda, lögbundna hlutverki.
Verkefni öldungaráðs eru nefnilega mjög mikilvæg og margskonar eins og t.d. að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra, að samhæfa þjónustu við aldraða og gera tillögur til bæjarstjórnar og annarra um öldrunarþjónustu. Einnig á öldungaráð að leitast við að tryggja að aldraðir fái þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.
Til þess að öldungaráðið geti sinnt sínum skyldum eins vel og unnt er þá er það okkar skoðun að gera þurfi vandaða þjónustukönnun meðal eldri borgara Mosfellsbæjar til þess að greina stöðuna og hvað megi bæta til að byggja upp og gera Mosfellsbæ að aldursvænum bæ.
Já, það er að mörgu að hyggja og mörg verkefni fram undan. Nú í upphafi fyrsta vetrar nýs meirihluta er ánægjulegt að greina frá því að nú er loksins boðið upp á heimsendan mat um helgar eins og alla aðra daga.
Þá hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá Eir sem er framkvæmdaaðili stuðningsþjónustu fyrir Mosfellsbæ sem bæta eiga þá þjónustu sem veitt er.
Þetta eru einungis fyrstu skrefin í þeirri vegferð sem mörkuð er í samstarfssamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Það er mikilvægt að vera virkur í lífinu, eiga kost á öflugum tækifærum til heilsueflingar, virkrar samfélagsþátttöku, finna til virðingar og það sé hlustað á mann. Það eykur lífsgæðin til muna.
Við lifum einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.
Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Ólafur Ingi Óskarsson, formaður fjölskyldunefndar