Framkvæmdir í Mosfellsbæ, frestun og aukinn kostnaður
Nýr bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Regína Ásvaldsdóttir, tók til starfa þann 1. september sl. og bjóða sjálfstæðismenn hana velkomna til starfa.
Fyrir kosningar lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram ígrundaða og fjölbreytta stefnuskrá og mun reyna að tryggja sínum málum framgang á kjörtímabilinu.
Mikilvæg mál bíða nýrrar bæjarstjórnar í stækkandi sveitarfélagi í samfélagi sem einkennist af verðbólgu og óstöðugleika. Áhersla ætti að vera á að halda álögum á íbúa eins lágum og kostur er, viðhafa ábyrga stjórn fjármála og taka upplýstar og faglegar ákvarðanir um mál sem snerta hagsmuni bæjarins. Það er ljóst að Mosfellsbæ verður ekki stjórnað eingöngu á brosi og bjartsýni.
Uppbygging að Varmá – frestun
Fyrirhuguð uppbygging að Varmá er mikilvægt verkefni. Núverandi meirihluti hefur stöðvað þær áætlanir og er með í endurskoðun uppbyggingu á þjónustuhúsi sem hefja átti sl. vor. Við útboð bárust ekki tilboð í verkið en í stað þess að hefja samningaviðræður við verktaka eða breyta forgangsröðun var verkinu frestað. Ástæðan sem gefin var fyrir þeirri frestun var sú að endurskoða ætti meðal annars stærð og notkun hússins.
Það er skemmst frá því að segja að í janúar fór fram endurskoðun á teikningum og gerðar breytingar í samráði við Aftureldingu. Þær teikningar voru samþykktar í bæjarstjórn og bæjarráði en þá höfðu fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar, sem nú eru í meirihluta engar athugasemdir. Meirihlutinn veit ekki í hverju möguleg stækkun á að felast, hver nýting stækkunarinnar ætti að vera og þá hefur ekki komið fram hver viðbótar kostnaður verður.
Ákvörðunin um frestun framkvæmda að Varmá kemur sér illa fyrir Aftureldingu. Kostnaður mun aukast vegna verðbólgu og hærri vaxta og framkvæmdir munu tefjast a.m.k. um eitt ár. Til þess að lágmarka skaðann af þessum töfum lögðu bæjarfulltrúar D-listans fram tillögu í bæjarráði um að breyta forgangsröðun og byrja á að leggja nýjan gervigrasvöll sem fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Þeirri tillögu var því miður hafnað.
Fimmti áfangi Helgafellshverfis – tafir á úthlutun lóða
Annað hagsmunamál Mosfellsbæjar er úthlutun lóða í fimmta áfanga Helgafellshverfis. Í ár var á dagskrá hjá fyrri meirihluta að úthluta lóðum undir 140 íbúðareiningar, aðallega einbýli, par- og raðhús, strax að loknum kosningum.
Úthlutun lóðanna hefur ekki getað átt sér stað vegna málaferla. Fyrir nokkrum dögum féll dómur í málinu þar sem fallist var á öll sjónarmið Mosfellsbæjar.
Málið hefur verið óþægilegt og erfitt í meðferð og meðhöndlun fyrir nýjan meirihluta vegna náinna tengsla og hagsmuna oddvita Framsóknarflokksins. Það er eflaust einsdæmi að sitjandi formaður bæjarráðs sé í málaferlum við bæinn sem hafa haft í för með sér mikinn kostnað og tafir fyrir sveitarfélagið. Það hefði verið heiðarlegra af oddvitanum að upplýsa kjósendur um þessi málaferli fyrir kosningar þar sem upplag Framsóknarflokksins í sinni kosningabaráttu var einmitt heiðarleiki, gagnsæi og góð upplýsingagjöf.
Við erum öll að vinna að sama markmiði sem er að vinna að hagsmunum Mosfellsbæjar og gera það sem í okkar valdi stendur til að gera samfélagið okkar enn betra. Ekki má gleyma að bæjarstjórn er fjölskipað stjórnvald þar sem meiri- og minnihluti bera sameiginlega ábyrgð og eiga að vera jafn upplýstir. Von okkar er sú að samvinna bæjarstjórnar verði árangursrík og farsæl og að upplýsingagjöf, gagnsæi og heiðarleika verði raunverulega fylgt eftir svo að bæjarfulltrúar minnihlutans þurfi ekki að halda áfram að lesa fréttir af málefnum bæjarins í fjölmiðlum.
Bæjarfulltrúar D-lista,
Ásgeir, Jana, Rúnar og Helga.