Fyrstu 100 dagarnir í bæjarstjórn Mosfellsbæjar
Það fór væntanlega ekki fram hjá mörgum að í vor kusu Mosfellingar að endurnýja talsvert í hópi bæjarfulltrúa.
Síðustu vikur hjá nýjum meirihluta hafa því að hluta til farið í að fá upplýsingar um gang mála frá síðasta kjörtímabili. Þar kennir ýmissa grasa og eins og við var að búast nokkur mál sem fóru ekki hátt í aðdraganda kosninga.
Þar má nefna rakaskemmdir í húsnæði Kvíslarskóla sem kalla á gríðarlegar endurbætur á skólanum. Nú er unnið af miklu kappi að uppsetningu lausra kennslustofa til að skólahald geti hafist á næstu dögum.
Verkefnið er afskaplega umfangsmikið og kostnaðarsamt en að sama skapi óumflýjanlegt. Það er mikilvægt að skólasamfélagið geti treyst því að þarna verði gengið heiðarlega til verka og engu sleppt þannig að tryggt sé að nemendur og starfsfólk geti gengið til starfa í heilsusamlegu húsnæði.
Annað mikilvægt verkefni eru viðræður um yfirtöku á rekstri Skálatúns. Það er að sjálfsögðu hluti af skyldum Mosfellsbæjar að annast um velferð heimilismanna þar. En reksturinn í núverandi mynd hefur ekki gengið vel árum saman og málið hefur legið ófrágengið á borði sveitarfélagsins í langan tíma. Við munum ganga að samningaborðinu með hagsmuni heimilismanna og Mosfellsbæjar til lengri tíma í huga.
Þriðja málið sem ástæða er til að nefna hér eru endurbætur á Varmársvæðinu. Hvort sem það lýtur að þjónustubyggingu, nýju gervigrasi, lýsingu eða annarri aðstöðu þá er mikil pressa á að taka ákvarðanir og hefjast handa sem fyrst. Þar viljum við vanda til verka og hugsa til framtíðar í stækkandi bæjarfélagi. En vinna er í fullum gangi við að skoða forgangsröðun og undirbúa framkvæmdir.
Hér er aðeins tæpt á nokkrum málum sem hafa verið til umfjöllunar síðustu vikur. Þau eru að sjálfsögðu fleiri og öll mikilvæg fyrir þá sem að þeim koma. Við sem buðum okkur fram í sveitarstjórn í vor vissum auðvitað að hér væri verk að vinna.
Við vissum að það þyrfti að taka stórar ákvarðanir sem varða framtíð Mosfellsbæjar. Við vissum að fjárhagsstaðan væri ágæt en auðvitað er hún ekki góð frekar en í rekstri sveitarfélaga almennt í landinu. Við lögðum áherslu á samráð, samvinnu og forgangsröðun. Við munum standa við það og vanda okkur við þá ákvarðanatöku sem bíður okkar. Sumt er brýnt en annað verður að bíða eins og venjan er í rekstri.
Fyrstu 100 dagarnir eru ekki liðnir en núverandi meirihluti leggur mikla áherslu á að auka traust á milli stjórnmála, stjórnsýslu og bæjarbúa. Það gerum við með því að auka gagnsæi, efla upplýsingagjöf og auka lýðræðislegt samtal.
Við viljum aftur þakka fyrir traustið og velvildina sem okkur hefur verið sýnd í hvívetna í bænum. Hvort sem það eru bæjarbúar á förnum vegi eða starfsfólk stjórnsýslunnar sem aðstoðar okkur og deilir af þekkingu sinni eða aðrir kjörnir fulltrúar sem sýna samstarfsvilja og hugsa fyrst og fremst um hagsmuni bæjarins og þeirra sem í honum búa.
Framsókn, Samfylking og Viðreisn