Síðsumarhreyfing
Ég er bæði frí-maður og rútínu-maður. Finnst gott að breyta til, ferðast, fara á nýja staði, upplifa nýja hluti og gera aðra hluti en venjulega. En mér finnst yfirleitt mjög gott að koma til baka úr fríi og stíga aftur inn í rútínu. En ekki endilega sömu rútínu og síðast.
Mér til mikillar lukku fann ég róðrarvél í æfingasalnum okkar þegar við komum heim úr sumarfríinu. Forláta gripur sem vinir okkar eiga. Þau voru að flytja og fundu ekki góðan stað fyrir róðrarvélina þannig að hún er komin í pössun til okkar. Ég ákvað að bæta róðri inn í morgunrútínuna og tek þægilega lotu á græjunni góðu þrjá morgna í viku. Ég vona að að hún verði sem lengst í pössun hjá okkur.
Ég er líka byrjaður að æfa reglulega hjá sjálfum mér. Eða hjá æfingaklúbbnum okkar Völu öllu heldur. Ég ákvað að breyta til hjá mér í haust, hætta að þjálfa aðra og einbeita mér að öðrum verkefnum. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun, en ég sakna æfingahópsins og fólksins, og ákvað því að byrja að mæta sjálfur á æfingar til þess að hitta þau reglulega. Er búinn að mæta vel síðustu tvær vikur og ætla að halda áfram að gera það. Mér finnst þetta virkilega gott, að vera æfingafélagi í stað þess að vera þjálfari.
Fyrir utan róðurinn og æfingarnar reglulegu er ég með á vikuprógramminu eina fellagöngu. Fellin okkar eru bara best.
En lífið er ekki bara hreyfing. Gatan okkar þjófstartaði og hélt götugrill um síðustu helgi. Það er ótrúlega gaman að hitta nágrannana í afslöppuðum aðstæðum þar sem enginn er að flýta sér. Við erum mjög heppin með nágranna, gatan okkar er stútfull af skemmtilegu fólki sem gaman er að spjalla við og kynnast betur. Golfmót götunnar kom til umræðu, ég bíð spenntur eftir því!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. ágúst 2022