Margt er í boði Mosfellsbæ
Fátt er mikilvægara en að búa við góða heilsu og öryggi þegar efri árin færast yfir. Eldra fólk á að hafa tækifæri til þátttöku í samfélaginu í samræmi við óskir, þarfir og getu. Auðvelda á eldra fólki að ástunda heilbrigða lífshætti og hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Hægt er að koma í veg fyrir félagslega einangrun sem getur svo leitt til andlegrar og líkamlegrar hrörnunar. En hvað er í boði í okkar bæ?
Þjónustan í Eirhömrum
Þjónustuklasi fyrir eldri borgara er í Eirhömrum við Hlaðhamra 2. Á Eirhömrum eru 53 öryggisíbúðir sem Eir hjúkrunarheimili rekur og nýuppgerð þjónustumiðstöð sem hýsir félagsstarf, mötuneyti, hárgreiðslustofu, auk þess sem fótaaðgerðafræðingur er þar til húsa og Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni.
Hjúkrunarheimilið Hamrar tók til starfa í október árið 2013 og þar búa 30 einstaklingar. Í húsinu er einnig dagdvöl, hlutverk hennar er að bjóða einstaklingum sem þurfa eftirlit og umsjá félagslegan stuðning, tómstundaiðju og aðstoð við athafnir dagslegs lífs.
Heimaþjónusta
Markmið heimaþjónustu er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa í heimahúsi sem lengst. Þjónustan er veitt þeim sem þarfnast hennar vegna skertrar færni, fjölskylduaðstæðna, veikinda eða fötlunar. Starfsmaður fjölskyldusviðs heimsækir umsækjanda og metur þörf fyrir þjónustu. Starfsmenn Eirhamra veita þjónustuna og miðast hún við heimilishald, s.s. þrif á gólfum, baðherbergi, skipti á rúmum og fleira. Hægt er að sækja um heimahjúkrun hjá heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem veitir m.a. aðstoð við böðun og lyfjagjöf. Þeir sem ekki geta annast matseld sjálfir geta fengið heimsendan mat frá Eirhömrum.
Önnur þjónusta
Akstursþjónusta er ætluð 67 ára og eldri sem búa í heimahúsi, hafa ekki aðgang að eigin farartæki og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Strætó b.s sér um aksturinn. Þjónustutími akstursþjónustunnar miðast við þjónustutíma almenningsvagna Strætó b.s. Hægt er að panta ferð með tveggja tíma fyrirvara. Ef ferð á að hefjast fyrir klukkan 9:30 að morgni þarf pöntun að hafa borist fyrir kl. 20:30 kvöldið áður.
Heimsóknarþjónusta frá Rauða krossinum og Lágafellskirkju. Hlutverk heimsóknarvinar er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Einsemd er alvarlegt vandamál í íslensku samfélagi. Aðstæður fólks geta orðið til þess að það missir samband við aðra og einangrast. Heimsóknavinir leitast við að rjúfa slíka einangrun.
Félagsstarf eldri borgara – góður félagsskapur og holl hreyfing
Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni, FaMos, er fyrir alla 60 ára og eldri. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna eldri borgara ásamt því að sinna tómstunda-, fræðslu-, og menningarmálum. Einnig er unnið að því að skapa öldruðum félagslegt og efnahagslegt öryggi. Frítt er í leikfimi fyrir eldri borgara á Eirhömrum. Frekari upplýsingar veitir Elva Björg Pálsdóttir, forstöðumaður félagsstarfs aldraðra á Eirhömrum. FaMos stendur einnig fyrir fjölbreyttu íþróttastarfi eins og t.d. sundleikfimi í Lágafellslaug og Boccia í íþróttahúsinu að Varmá.
Hvar er sótt um þjónustuna?
Allar upplýsingar eru veittar í þjónustuveri Mosfellsbæjar í síma 5256700. Einnig er hægt að sækja um heimaþjónustu í gegnum íbúagátt á vefnum mos.is. Ráðgjöf við eldra fólk og aðstandendur þeirra veita Vibeke Þ. Þorbjörnsdóttir, deildarstjóri búsetu- og þjónustudeildar og Kristbjörg Hjaltadóttir ráðgjafarþroskaþjálfi.
Að horfa fram veginn
Mikilvægt er að fólk sitji ekki með hendur í skauti þegar það hættir atvinnuþátttöku. Með léttri lund og hollum lífsstíl er sennilegt að við getum aukið lífsorku okkar eða haldið henni við lengur en ella. Þess vegna er aldrei of seint að horfa fram á veginn, hversu gömul sem við erum. Þar sem við sníðum okkur stakk eftir vexti með jákvæðu hugarfari.
Fyrir hönd Öldungaráðs Mosfellsbæjar,
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Greinin birtist í Mosfellingi 3. desember 2015