Skipulag fyrir fólk
Mosfellsbær er, í stóra samhenginu, tiltölulega nýorðinn bær. Fyrir ekki svo löngu vorum við ennþá Mosfellssveit og ímynd bæjarins er enn þann dag í dag einhvers konar sveit í borg. Fullkomið jafnvægi þess að búa nálægt öllu sem borg hefur upp á að bjóða en á sama tíma anda djúpt að sér í grænu umhverfi.
Mosfellsbær hefur stækkað mikið og í vaxandi bæ þarf að huga að ýmsu. Ef við viljum halda í þá ímynd sem bærinn okkar hefur þarf að vanda til verka.
Húsnæðismál eru stórt mál í Mosfellsbæ og verður áfram, ekki síst fyrir ungar fjölskyldur. Gríðarleg uppbygging hefur þegar farið fram og áform eru um uppbyggingu á Blikastaðalandi. Ótal tækifæri felast í því þegar nýtt hverfi er skipulagt frá grunni. Tækifæri til að gera meira en bara að setja niður þéttan fjölda íbúðarhúsa sem öll eru eins. Þétting byggðar er af hinu góða fyrir umhverfið, en það má ekki ganga of langt, það getur haft áhrif á lífsgæði og lýðheilsu fólksins sem byggir hverfin.
Stefna Vinstri grænna er skýr þegar kemur að því að öll hverfi skuli hafa þjónustu í göngufæri og græn svæði. Gera skal ráð fyrir heilnæmu umhverfi og öllu því sem gefur lífinu gildi, leikvöllum, svæði til útivistar og samveru. Hverfi er nefnilega meira en bara íbúðin sem þú býrð í og bæjarskipulag á að þjóna fólkinu sem þar býr en ekki öfugt. Skólar og leikskólar skulu vera vel staðsettir og þeim þurfa að fylgja lóðir sem gera yngstu kynslóðunum auðvelt að vaxa og dafna og rannsaka heiminn í kringum sig.
Í takt við að leggja áherslu á að skapa fjölbreytta flóru af þjónustu í heimabæ þarf að huga að því að til staðar séu fjölbreytt atvinnutækifæri, svo ekki þurfi allir að sækja sér atvinnu út fyrir bæjarmörkin.
Við Vinstri græn viljum leggja áherslu á að gera íbúum bæjarins kleift að stunda áhugaverð störf í nærumhverfinu ásamt því að styðja við bakið á fyrirtækjum í bænum. Stuðla þarf að sveigjanlegum vinnumarkaði meðal annars með störfum án staðsetningar og fjarvinnukjörnum þar sem einyrkjar eða litlir samstarfshópar geta leigt sér skrifstofurými og fundarherbergi til skemmri og lengri tíma. Skapandi og líflegt vinnuumhverfi sem þetta styrkir böndin milli fólks í ólíkum atvinnugreinum og býr til tækifæri til nýsköpunar og samstarfs. Styrkja þarf græn störf, m.a. við uppbyggingu grænna svæða sem efla ferðaþjónustu og náttúruvernd.
Í Mosfellsbæ eru ótal tækifæri þar sem mikilvægt er að vanda til verka þar sem uppbygging samræmist þörfum fólksins í takt við umhverfisstefnu bæjarins og loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Við Vinstri græn erum tilbúin í þá vinnu. Göngum lengra í Mosfellsbæ.
Höfundar sitja á lista Vinstri grænna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Mosfellsbæ. Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir, formaður VG í Mosfellsbæ situr í 2. sæti og Garðar Hreinsson situr í 5. sæti.