Íþrótta- og tómstundastarfsemi í Mosfellsbæ
Mosfellsbær er ört vaxandi samfélag og hér býr fjölbreyttur hópur fólks og er því mikilvægt að hér sé öflugt og fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf.
Við í Sjálfstæðisflokknum viljum stuðla að aukinni hreyfingu almennings og efla lýðheilsu bæjarbúa.
Í heilsueflandi samfélagi er algjört lykilatriði að góð aðstaða sé til íþróttaiðkunar en við í Sjálfstæðisflokknum ætlum að halda áfram að bæta aðstöðuna við íþróttamiðstöðvarnar í Lágafelli og að Varmá og jafnframt lengja opnunartíma í Lágafellslaug.
Við stefnum á að taka í notkun glæsilega 900 fermetra nýbyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá og viljum við hraða samþykktum uppbyggingaráætlunum á íþróttasvæðinu að Varmá eins mikið og aðstæður leyfa og stefnum á að ljúka við endurnýjun á Tungubökkum.
Þá viljum við einnig stuðla að frekari útiveru bæjarbúa, einkum eldri íbúa bæjarins, og ætlum við því að setja upp fleiri æfingatæki og bekki á útivistarsvæðum og gönguleiðum bæjarins sem verður vonandi hvatning til aukinnar útivistar.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að börn og unglingar finni sig í íþróttum og/eða tómstundum. Á síðustu árum hefur verið mikil þróun á samfélaginu, einkum á sviði íþrótta og tómstunda, hér má t.d. nefna rafíþróttir og nýjar jaðaríþróttir. Með tilkomu nýrra íþrótta- og tómstunda fá börn, sem ekki finna sig í hefðbundum íþróttum, aukin tækifæri á að finna sér grein sem hentar þeim.
Mikilvægt er að Mosfellsbær fylgi þessari þróun, við viljum styðja áfram við nýsköpun í lýðheilsumálum og finna þeim farveg og traustan sess innan Mosfellsbæjar.
Við leggjum áherslu á fjölbreyttar tómstundir fyrir eldri borgara því eins og með börnin er mikilvægt að eldri íbúar bæjarins finni sér afþreyingu sem hentar þeim. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum halda áfram stuðningi við eldri borgara og auka við uppbyggingu á íþrótta- og félagsstarfi eldri íbúa Mosfellsbæjar.
Við ætlum að hækka enn frekar frístundaávísanir hjá ungmennum og eldri borgurum til að tryggja jafnan aðgang barna og unglinga að íþrótta og tómstundastarfi bæjarins og stuðla að aukinni hreyfingu, virkni og lýðheilsu eldri íbúa Mosfellsbæjar.
Brynja Hlíf Hjaltadóttir skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.