Sameinumst um heilsueflandi samfélag

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú styttist heldur betur í sveitarstjórnarkosningar og áherslur og stefnuskrár framboða í bænum hafa litið dagsins ljós.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá að flestir flokkar, ef ekki allir, leggja áherslu á lýðheilsumál og áframhaldandi uppbyggingu Heilsueflandi samfélags hér í Mosfellsbæ með einum eða öðrum hætti. Í því samhengi er vert að rifja upp að nú eru liðin 10 ár frá því að Mosfellsbær, fyrst allra sveitarfélaga, hóf formlegt samstarf við Embætti landlæknis og heilsuklasann Heilsuvin í Mosfellsbæ um uppbyggingu Heilsueflandi samfélags hér í bæ.

Samvinna er lykilatriði
Til að ná árangri við slíka uppbyggingu er lykilatriði að allir hagaðilar stefni að því sameiginlega markmiði að auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Rannsóknir hafa sýnt að áhrifaþættir heilbrigðis felast m.a. í geðrækt og líðan, mataræði, hreyfingu og útivist sem saman skapa lífsgæði okkar auk umhverfis- og efnahagslegra þátta. Stjórnvöld þurfa að taka tillit til heilsu við allar stefnumótandi ákvarðanir í samfélaginu varðandi t.d. skóla-, umhverfis-, íþrótta, tómstunda-, samgöngu-, skipulags-, atvinnu-, menningar- og öldrunarmál.
Íbúar þurfa jafnframt að vera virkir þátttakendur og grípa eða benda á öll þau tækifæri sem hægt er að nýta til að byggja hér upp fyrirmyndarsamfélag sem leggur áherslu á vellíðan og lífsgæði íbúa. Samvinna allra, að ógleymdu frumkvæði, er lykillinn að árangri.

Lýðheilsustefna
Nú hefur Lýðheilsustefna Mosfellsbæjar litið dagsins ljós og hafa þar verið hnýttir saman þræðir þeirrar miklu vinnu við uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í bænum okkar undanfarin ár.
Næsta mál á dagskrá er að bretta upp ermar og sameinast um kraftmikla innleiðingu þeirrar stefnu sem talar að sjálfsögðu við allar aðrar meginstefnur bæjarins. Það mun renna enn styrkari stoðum undir þann heilsubæ sem bærinn okkar sannarlega er og tryggja nauðsynlega framþróun á öllum sviðum.

Ávinningur allra
Uppbygging Heilsueflandi samfélags er ávinningur fyrir alla og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að hver króna sem varið er í heilsueflingu og forvarnir skilar sér margfalt til baka til samfélagsins svo ekki sé minnst á bætta heilsu og aukin lífsgæði allra, þar liggja raunverulegu verðmætin.
Leggjumst öll á árarnar til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í bænum okkar því við hljótum öll að vilja búa í samfélagi þar sem áhersla er lögð á vellíðan og lífsgæði allra íbúa.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ