Mikilvægi leiðtoga
Ég hef verið stuðningsmaður Nottingham Forest síðan ég man eftir mér. Það er búið að vera sérstaklega áhugavert að fylgjast með liðinu á núverandi tímabili en liðið spilar í næstefstu deild á Englandi. Eftir fyrstu 7 umferðirnar var liðið með 1 stig í neðsta sæti. Þáverandi knattspyrnustjóri var varfærinn og varnarsinnaður og liðið lagði mesta áherslu á að reyna að tapa ekki (sem það gerði samt) og að fá ekki á sig mörk (sem það gerði). Hann breytti aldrei um aðferð, sama hvað illa gekk og á endanum fengu eigendur félagsins nóg, ráku hann og fengu Steve nokkurn Cooper til að taka við.
Aðdáendur liðsins voru himinlifandi að losna við áhættufælna knattspyrnustjórann en flestir vildu fá reynslumeiri og þekktari stjóra en Steve Cooper. Staðan í dag, þegar örfáar umferðir eru eftir af deildinni, er sú að Forest er í toppbaráttu. Liðið er öruggt um sæti í úrslitakeppni um að komast upp í úrvalsdeildina og á, þegar þetta er skrifað, möguleika á því að enda í öðru sæti deildarinnar og komast þar með beint upp.
Viðsnúningurinn hefur verið ótrúlegur frá því að varfærni stjórinn sem engu vildi breyta kvaddi klúbbinn. Í dag ríkir bjartsýni og gleði. Menn þora, trúa og framkvæma samkvæmt því. Samstaða innan liðs og utan er mögnuð, allir stefna í sömu átt. Leikmenn njóta þess að spila jákvæðan fótbolta og að vera hluti af öflugri liðsheild. Og þetta smitar, Nottingham er eins og Akranes, þegar vel gengur í boltanum eru allir brosandi og kátir. Allt verður auðveldara og einfaldara.
Steve Cooper fær fólk til að trúa, til að vinna saman, til að vera stolt af fortíðinni og til að gera nútíð og framtíð betri. Hann tengir við leikmenn, stjórnarmenn, eigendur og stuðningsmenn. Allir skipta máli hjá honum.
Það er stutt í kosningar. Það skiptir máli hver stjórnar.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. apríl 2022