Fyrsta áfanga endurgerðar á Hlégarði lokið
Vinna við heildstæða endurgerð fyrstu hæðar Hlégarðs lauk á dögunum og verður húsið opið fyrir bæjarbúa sunnudaginn 10. apríl frá kl. 13 til 16..
Í fyrsta áfanga var fyrsta hæð endurgerð, skipt var um öll gólfefni, lagnir endurnýjaðar, salerni endurnýjuð og hæðin öll innréttuð á ný með ljósri eik til samræmis við upphaflegt útlit hússins.
Hlégarður er teiknaður af Gísla Halldórssyni arkitekt og var þess sérstaklega gætt að halda heildaryfirbragði hússins í samhengi við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu þess. Samhliða var það að markmiði að breytingarnar yrðu til þess að auka notagildi hússins.
Nýttu myndir frá fyrr tíð
„Hlégarður er okkur Mosfellingum mjög mikilvægt hús og það hefur verið gaman að fylgjast með þeirri umbreytingu á aðstöðu til viðburðarhalds sem endurgerður Hlégarður felur í sér. Við fórum þá leið að skoða hönnun og sögu hússins, nýttum myndir frá fyrri tíð sem geymdar eru á Héraðsskjalasafninu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þannig verður héðan í frá unnt að halda tvo til þrjá viðburði á sama tíma með bættri lokun milli rýma. Hin hliðin á þeim þætti er síðan að unnt verður að opna betur á milli rýma þegar aðstæður kalla á það.“
Opið hús fyrir bæjarbúa
„Í upphafi stóð til að fara eingöngu í fyrsta áfanga endurgerðar Hlégarðs en ákveðið var að flýta nokkrum verkþáttum sem tengjast öðrum áfanga sem er endurgerð annarrar hæðar og við því komin á rekspöl í öðrum áfanga.
Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja íbúa til að mæta í opið hús næsta sunnudag milli kl. 13 og 16,“ segir Haraldur.