Fjárfestum í ungu fólki
Undir forystu Framsóknar hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, staðið að einu mesta átaki sem lagt hefur verið í varðandi velferð barna og ungmenna á Íslandi.
Slagorðið „fjárfestum í fólki” var eitt af megin stefum Framsóknar í síðustu Alþingiskosningum. Framsókn í Mosfellsbæ hefur sett það á stefnuskrá sína að halda þeirri stefnu á lofti að fjárfesta í ungu fólki þar sem að öll fjárfesting í fólki skilar sér margfalt til baka í framtíðinni.
Hvað felst í því að fjárfesta í ungu fólki?
Fjárfestingar eru fjármunir sem ráðstafað er til lengri eða skemmri tíma og þurfa að skila því að kostnaður verði ekki meiri en fjárfest var fyrir og helst að skila arði. Fjárfesting í ungu fólki þýðir það að halda þarf úti þjónustu og verkefnum sem stuðla að þroska, byggja upp reynslu, draga úr áhættu og auðvelda inngrip þegar á þarf að halda.
Kostnaður við að halda úti slíkri þjónustu er þá sú fjárfesting sem mun til lengri tíma litið leiða til þess að unga fólkið í dag verði kraftmiklir, hugmyndaríkir og heilbrigðir fullorðnir einstaklingar sem skapa verðmæti fyrir samfélag framtíðarinnar og verða þá jafnframt síður líkleg til að lenda út af sporinu síðar á lífsleiðinni. Með öðrum orðum, fjárfestingin skilar sér til framtíðar í auknum lífsgæðum einstaklinga, auknum tekjum fyrir samfélagið og lægri kostnaði.
Það eru fjölmörg verkefni sem sveitarfélög sinna sem snúa að ungu fólki. Í leikskóla og upp allan grunnskóla er börnum skapað umhverfi sem stuðlar að auknum þroska, námi og félagsfærni. Í félagsmiðstöðvum er skipulagt starf, í umsjá fagfólks, sem hefur mikið forvarnargildi. Þar fá ungmenni að spreyta sig á verkefnum í öruggu umhverfi.
Viðfangsefnin eru fjölbreytt, enda er ungt fólk margbreytilegt með mismunandi áhugasvið, mismunandi forsendur og mismunandi getu. Félagsmiðstöðvar sem reknar eru á faglegum forsendum með reyndu starfsfólki eru kjörinn vettvangur til að koma til móts við þær fjölbreyttu þarfir og áskoranir ungs fólks.
Félagsmiðstöðin Bólið er rekin á þremur starfsstöðvum, Lágafellsskóla, Kvíslaskóla/Varmárskóla og Helgafellsskóla. Opnunartími félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ miðast við skólaárið. Það hefst um miðjan ágúst og lýkur í enda maí.
Það að tryggja samfellu í starfi félagsmiðstöðva allt árið hefði í för með sér að hægt væri að sinna því mikilvæga forvarnarstarfi, sem unnið er í félagsmiðstöðvum, einnig yfir sumartímann. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir faglegt starf að geta boðið upp á fleiri heilsársstörf fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að félagsmiðstöðin Bólið verði starfandi yfir sumartímann til að tryggja áframhaldandi velferð og utanumhald um unga fólkið okkar.
Framsókn vill fjárfesta í ungu fólki.
Hrafnhildur Gísladóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, 7. sæti á lista Framsóknar
Leifur Ingi Eysteinsson nemi í tómstunda og félagsmálafræði, 5. sæti á lista Framsóknar