Lítur Mosfellsbær undan?
Í Úkraínu geisar stríð. Stríð sem fylgir eyðilegging, hörmungar, sorg, dauði og fólksflótti. Flóttafólk streymir inn í nágrannaríkin í Evrópu, aðallega konur og börn.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum koma að meðaltali 20 flóttamenn á dag hingað til lands frá stríðshrjáðri Úkraínu. Nú þegar eru komin vel á sjötta hundrað manns og þann 31. mars höfðu 520 sótt um vernd á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum UNICEF, hafa 60% barna í Úkraínu flúið heimili sitt, 60 prósent!
Tillagan
Undirrituð lagði fram tillögu í bæjarráði Mosfellsbæjar í byrjun marsmánaðar um að bærinn snéri sér til Flóttamannanefndar og byðist til að taka þátt í að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu enda hafði nefndin biðlað til sveitarfélaga í fjölmiðlum.
Með þessari tillögu vildi ég gera mitt til að Mosfellsbær skipaði sér í fremstu röð sveitarfélaga í landinu þegar kemur að varðstöðu um mannúð og mannréttindi. Að Mosfellsbær axlaði sína samfélagslegu ábyrgð þegar þjóðin stendur frammi fyrir stórum úrlausnarefnum á sviði mannúðar og mannréttinda.
Afgreiðslan
Afgreiðsla bæjarráðs fólst í að óska eftir minnisblaði um málið. Svar meirihlutans við þessari tillögu var að fá minnisblað um að Mosfellsbær sé að móta sér stefnu í málaflokknum. Engin leið er að skilja þessa afgreiðslu öðru vísi en svo að flóttafólk, stríðshrjáð heimilislaust fólk, konur og börn verði bara að bíða eftir að þeirri stefnumótun ljúki áður en Mosfellsbær getur ákveðið hvort, hvernig eða hvenær hann tekur þátt.
Það er verst að rússneska innrásarliðið veit ekki af þessari stefnumótunarvinnu svo það geti hægt á árásaraðgerðum sínum.
Nágrannasveitarfélög
Nokkur fjöldi íslenskra sveitarfélaga hafa lýst sig viljug til að taka við fólki, til lengri og skemmri tíma, og standa viðræður yfir milli þeirra og ríkisvaldsins og Rauða krossins um fyrirkomulag.
Þegar þessi grein er skrifuð eru tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem skera sig úr og eru ekki í þessum hópi sem er verið að semja við. Annað þeirra er heimabær okkar.
Af hverju?
Hvað veldur þessari afstöðu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins? Tvær skýringar koma upp í hugann. Fyrri er sú að það sé hvaðan þessi tillaga kom sem valdi þessu sinnuleysi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.
Hin skýringin er að meirihlutinn telji sér bara ekki koma við hvað verður um konur og börn sem flúið hafa grimmdarlega innrás í heimaland sitt og leitað hingað til Íslands eftir skjóli.
Ég held að það sé fyrri skýringin en mikið ósköp er hún fáfengileg.
Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar