Nýir vendir sópa best

Stefán Ómar Jónsson

Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar var samþykktur á fundi félagsins þann 28. mars síðastliðinn.
Kynslóðaskipti verða í forrystusveit Vina Mosfellsbæjar þar sem undirritaður oddviti listans síðustu fjögur ár færir sig lítið eitt aftar á framboðslistanum að eigin ósk. Reynsla mín í sveitarstjórnarmálum hverfur ekki á braut heldur mun ég veita nýjum Vinum Mosfellsbæjar stuðning og tryggja yfirfærslu þekkingar.

Það er nauðsynlegt að þeir sem gegna forystu í pólitísku starfi þekki hvenær tími er kominn til endurnýjunar. Breytingar á forrystusveit Vina Mosfellsbæjar á þessum tímapunkti eru að mínu viti skynsamlegar og liður í því að Vinir Mosfellsbæjar verði góður valkostur til framtíðar.

Ólafur heitinn Jóhannesson fyrrum forsætirráðherra var inntur eftir því við myndun sinnar fyrstu ríkistjórnar hverju það sætti að innan borðs í ríkisstjórninni væru nýir og ungir ráðherrar. Svar Ólafs var á þessa leið „Nýir vendir sópa best”. Það voru orð að sönnu og nýju ráðherrarnir stóðu sig með prýði.
Vinir Mosfellsbæjar ganga nú til sveitarstjórnarkosninga með sterkan og endurnýjaðan lista. Vinir Mosfellsbæjar munu kappkosta að reka kosningabaráttuna nú sem fyrr af heiðarleika þar sem farið verður í boltann en ekki manninn.
Erum við ekki öll Vinir?

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi vina Mosfellsbæjar