Friðlýsing Leiruvogsins
Eitt af mest spennandi svæðum í Mosfellsbænum er Leiruvogurinn. Í hann renna 4 ár: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá. Þetta svæði býður upp á skemmtilega útivist við allra hæfi: göngu, skokk, hjólreiðar, golf og hestamennsku.
Góðir stígar gera fólki með hreyfihömlum einnig kleift að njóta útiverunnar. Áhugamenn um fuglalíf finna varla betri stað til skoðunar því þar eru fuglar allan ársins hring, bæði mismunandi stórir hópar og sjaldgæfar tegundir. Leirurnar eru mikilvæg fæðuuppspretta fyrir staðfugla, farfugla og umferðafugla sérlega vor og haust.
Svona náttúruperlur ber að varðveita og vernda fyrir ágengi manna sem kann að valda raski og mengun.
Núna liggja fyrir drög að friðlýsingu Leiruvogs sem nær bæði yfir landið í Mosfellsbæ og Reykjavík. Samstarfshópur um friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs fundaði þann 1. mars. Vonandi er að koma skrið á þetta ferli og sátt um útfærslu þess. Í fundargerð Umhverfisnefndar Mos. frá 24. mars 2022 má fræðast um þetta nánar.
Og svo að fyrirhugaða friðlýsta svæði er að mestu leyti fjara og sjávarbotn þá ber einnig að gæta þess að mengun berst ekki í voginn utan frá. Sem dæmi ætla ég að nefna hrauka af efni sem féllu til við götusópun að vori til sem einu sinni voru sturtað niður mjög nálægt friðlandinu að Varmárósum.
Hestaskítur á ekki að fara í grennd við fjöruna heldur frekar á landsvæði sem menn ætla að græða upp og nota til skógræktar. Og fjúkandi plasttætlur frá heyböggunum ættu að heyra sögunni til. Auðvitað á að vakta reglulega árnar sem renna í voginn.
Ég vona að Mosfellsbær muni bera gæfu til þess að vinna með heilum hug í samstarfi við Reykjavíkurborg að friðlýsingu Leiruvogsins.
Úrsúla Jünemann