Fjölbreyttari ferðamáti er allra hagur

Valdimar Birgisson

Við erum sjálfsagt öll orðin langþreytt á þeim umferðarteppum sem myndast á álagstímum til og frá Mosfellsbæ.
Það er fátt leiðinlegra en að þurfa að bíða í endalausri bílaröð þegar hægt væri að nýta tímann í eitthvað annað. Samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið of litlar í langan tíma og afleiðingin er þessi. Við þurfum að hanga í bílum til þess að komast til vinnu og svo aftur heim. Það var fyrirséð að umferð myndi aukast með auknum fólksfjölda og tilraunir með að fá fólk til þess að nota almenningssamgöngur hafa verið veikburða og ekki skilað tilætluðum árangri.
Nú er hins vegar farið að hylla undir breytingar. Verið er að hrinda í framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins þar sem ríki og bæjarfélög sameinast um að leysa þennan vanda.
Fjármagnið skiptist c.a. 50/50 á milli almenningssamgangna og umferðarmannvirkja annars vegar og göngu- og hjólastíga hins vegar.
Við í Viðreisn leggjum áherslu á að jafnframt verði hafist handa við lagningu Sundabrautar sem allra fyrst. Það mun létta á umferð um Mosfellsbæ og minnka umferðartafir í Ártúnsbrekku, sem hefur bein áhrif á umferð úr Mosfellsbæ.
En af hverju ekki að nota allt fé í að bæta samgöngur fyrir bíla? Svarið við þessu er að það einfaldlega ekki hægt.
Því er spáð að umferð ökutækja, að öllu óbreyttu, muni aukast um 40% á næstu 15 árum. Það gefur því auga leið að það mun ekki vera hægt að anna þeirri aukningu með fjölgun vega eða akreina þannig að við verðum að beina hluta af umferð annað. Svo er það hreinlega krafa stórs hluta íbúa að boðið sé upp á valkost við einkabílinn.

Bættar almenningssamgöngur og fjölgun á göngu- og hjólreiðastígum mun leiða til þess að fólk hafi meira val um að velja sér ferðamáta. Viðreisn styður áform um fjölbreyttari ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu.

Valdimar Birgisson