Tökum samtalið
Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt.
Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.
Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.
Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. Það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit.
Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.
Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.
Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ