Viljum hafa meiri áhrif á stefnumörkun bæjarins
Framboðslisti Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí var samþykktur einróma á fjölsóttum félagafundi 5. mars.
Anna Sigríður Guðnadóttir núverandi oddviti leiðir listann, annað sætið skipar Ólafur Ingi Óskarsson varabæjarfulltrúi. Í þriðja sæti er Ómar Ingþórsson landslagsarkitekt og fjórða sæti skipar svo Elín Árnadóttir lögmaður. Sérstakur gestur fundarins var Logi Einarsson alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar.
Í sveitarstjórnarkosningum árið 2018 fékk Samfylkingin í Mosfellsbæ 9,5% greiddra atkvæða og einn kjörinn bæjarfulltrúa.
Við byggjum á þekkingu og reynslu
Anna Sigríður Guðnadóttir leiðir nú framboðslista Samfylkingarinnar í þriðja sinn.
„Ég er full tilhlökkunar og bjartsýni fyrir vorið. Við bjóðum fram mikla reynslubolta í sveitarstjórnarmálum ásamt öflugu fólki með reynslu víða að úr samfélaginu sem vill nú taka þátt og vinna að góðum málum í sínu sveitarfélagi. Sveitarstjórnarmál snúast um nærumhverfi okkar, félagsauðinn, skipulag, skólana, umhverfið, fólkið í bænum og hvernig við mótum umgjörðina um daglegt líf þess. Við byggjum afstöðu okkar til úrlausnarefna alltaf á alþjóðlegum grunngildum jafnaðarstefnunnar: Frelsi, jafnrétti og samábyrgð. Jafnaðarstefnan setur almannahagsmuni alltaf framar sérhagsmunum. Við viljum hafa meiri áhrif á stefnumörkun sveitarfélagsins og stefnum ótrauð þangað.“
Gerum bæinn skemmtilegri og meira aðlagandi
Jakob Smári Magnússon skipar 5. sæti Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum 2022. Hann hefur starfað sem tónlistarmaður og er menntaður áfengis og vímuefnaráðgjafi. Hann er giftur Rögnu Sveinbjörnsdóttur viðskiptastjóra.
„Ég vil leggja mitt á vogarskálarnar til að gera Mosfellsbæ að betri bæ. Ég vil gera bæinn skemmtilegri og meira aðlaðandi. Mig langar að sjá hér fallegan miðbæ og efla menningarstarf í bænum. Mosfellsbær á mikið af frábæru listafólki og bærinn á sér sögu sem við verðum að varðveita. Það þarf að vekja bæinn til lífsins og ég er til í að taka það að mér. Svo vil ég fá Pizzabæ aftur, takk fyrir.”
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ
1. Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi, stjórnsýslufræðingur og upplýsingafræðingur
2. Ólafur Ingi Óskarsson kerfisfræðingur
3. Ómar Ingþórsson landslagsarkitekt
4. Elín Árnadóttir lögmaður
5. Jakob Smári Magnússon tónlistamaður og áfengis- og vímuefnaráðgjafi
6. Sunna Björt Arnardóttir sérfræðingur í mannauðsmálum
7. Daníel Óli Ólafsson læknanemi
8. Margrét Gróa Björnsdóttir stuðningsfulltrúi í grunnskóla
9. Elín Eiríksdóttir framhaldsskólakennari
10. Ragnar Gunnar Þórhallsson hefur setið í stjórnum ÖBÍ, NPA miðstöðvarinnar og Sjálfsbjargar
11. Kristrún Halla Gylfadóttir umhverfis- og auðlindafræðingur
12. Guðbjörn Sigvaldason verslunarmaður
13. Sólborg Alda Pétursdóttir verkefnastjóri/ náms-og starfsráðgjafi
14. Þóra Sigrún Kjartansdóttir hágreiðslunemi
15. Símon Guðni Sveinbjörnsson bifreiðasmiður
16. Gerður Pálsdóttir þroskaþjálfi
17. Greipur Rafnsson nemi í félagsráðgjöf
18. Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir viðburðahönnuður og leiðbeinandi í grunnskóla
19. Finnbogi Rútur Hálfdánarson lyfjafræðingur
20. Nína Rós Ísberg framhaldsskólakennari
21. Ólafur Guðmundsson húsasmiður
22. Kristín Sæunnar Sigurðardóttir eftirlaunakona